Dagana 27. til 30. janúar heimsótti biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson, Hjallasöfnuð í Kópavogi. Vísitasía þessi var liður í heimsókn biskups í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra í vetur. Biskup heimsótti opið hús fyrir eldri borgara í Hjallakirkju og einnig 6-8 ára starfið, kirkjuprakkarana.

Var biskupi vel tekið og bæði ungir sem aldnir ánægðir með heimsóknina. Börnin í kirkjustarfinu föndruðu krossa sem þau sýndu biskupi og fengu svo að gjöf kross frá honum. Á sunnudeginum prédikaði biskup í messu safnaðarins. Að messu lokinni gafst fólki svo kostur á að setjast niður með biskupi og spjalla undir kaffisopa. Var því mjög vel tekið. Síðan tók biskup einnig þátt í sunnudagaskólanum eftir hádegi og aftur fengu börnin kross að gjöf.

Hjallasöfnuður þakkar kærlega fyrir heimsóknina sem tókst vel í alla staði. Það styrkir til muna starfið að fá heimsókn frá biskupi og kynna fyrir honum það sem fram fer í söfnuðinum. Heimsókn sem þessi uppörvar alla sem að starfinu koma, presta, sóknarnefnd, starfsfólk og sjálfboðarliða, og hvetur okkur öll til góðra verka innan kirkjunnar.