Í kyrru viku og á páskum verður helgihald í Hjallakirkju sem hér segir:

Á skírdagskvöld, fimmtudaginn 21. apríl kl. 20 verður Passíustund í kirkjunni. Atburðir skírdagskvöldsins verða rifjaðir upp, þátttakendur á stundinni feta í fótspor lærisveina Jesús er þeir áttu samfélag við hann við stofnun heilagrar kvöldmáltíðar. Séra Sigfús Kristjánsson þjónar og félagar úr Kór Hjallakirkju leiða sálmasönginn.

Á föstudaginn langa, 22. apríl, verður Passíustund kl. 15. Passían er lesin samkvæmt Jóhannesarguðspjalli og sungin verður föstutónlist m.a. úr Jóhannesarpassíunni eftir Bach. Minnst verður þess að í ár eru 90 ár frá því að Davíð Stefánsson orti sálminn Ég kveiki á kertum mínum. Um kvöldið kl. 20 verður Kvöldvaka við krossinn. Á þeirri stund er leitast við að lifa atburði dagsins á myndrænan hátt og minnast dauða Krists með táknrænum hætti. Í kórdyrum kirkjunnar verður reistur kross sem minnir á krossinn á Golgatahæð, þann sem frelsari okkar og Drottinn var negldur á og líflátinn. Við hann munu fermingarbörn lesa sjö orð Krists á krossinum. Sr. Íris Kristjánsdóttir leiðir stundina og fólk úr kirkjustarfinu annast lestur píslarsögunnar. Kórinn flytur fallega passíutónlist. Þátttakendur í kvöldvökunni yfirgefa kirkjuna myrkvaða.

Á páskadagsmorgun, 4. apríl hefst hátíðarguðsþjónusta kl. 8 árdegis, sannkölluð upprisuhátíð. Kór kirkjunnar syngur Páskadagsmorgun eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og leiðir safnaðarsöng. Auk þess verða sungnir hátíðarsöngvar séra Bjarna Þorsteinssonar og hefðbundnir páskasálmar. Að guðsþjónustunni lokinni er kirkjugestum boðið í morgunkaffi. Fólk er hvatt til að leggja leið sína í Hjallakirkju í kyrruviku og um páska.