Þriðjudaginn 24. maí kl. 20:00 verða vortónleikar Kórs Hjallakirkju.
Öll efnisskráin er veraldleg og er þar m.a. að finna nokkur lög Sigfúsar Halldórssonar svo sem Dagný, Við tvö og blómið og Lítill fugl.
Austfirðingnum Inga T. Lárussyni verða gerð góð skil. Fimm lög eftir hann eru á efnisskránni í kórsöng og einsöng, þar má nefna Átthagaljóðið, Nú andar suðrið og Gott áttu hrísla og Heimþrá. Þá má nefna lög Jóns Ásgeirssonar: Hjá lygnri móðu og Vorvísu. Þá á Friðrik Jónsson tvö vinsæl lög. Einnig eiga þau Bára Grímsdóttir, Eyþór Stefánsson, Pétur Sigurðsson og Þórarinn Guðmundsson sína fulltrúa.
Af erlendum lögum má nefna tvö lög eftir þá félaga John Lennon og Paul McCartney í óhefðbundnum útsetningum, John Dowland á litla perlu og síðan er skemmtileg útgáfa af þýska þjóðlaginu Mér um hug og hjarta nú við nýjan texta eftir Kristinn Jóhannesson, lektor í Gautaborg.
Einsöngvarar verða þau Erla Björg Káradóttir sópran og Einar Gunnarsson tenór, einnig Bergvin Magnús Þórðarson, Brynjar Björnsson og Gunnar Jónsson. Karlakvartett skipa þeir Árni Jón Eggertsson, Halldór Másson, Bergvin M. Þórðarson og Gunnar Jónsson. Alls taka rúmlega 30 kórfélagar þátt í tónleikunum sem eru lokaverkefni 24. starfsárs kórsins.
Meðleikari á píanó er Zbigniew Zuchowicz, gítarleikari er Valdemar Gísli Valdemarsson og söngstjóri Kórs Hjallakirkju er Jón Ólafur Sigurðsson.
Tónleikarnir eru þriðjudaginn 24. maí kl. 20 og aðgangur er kr. 1.500. (Athugið að ekki er tekið við kortum.)
Nánar hér til hliðar undir tónlistarstarfinu vorið 2011