Á Hvítasunnudag, 12. júní kl. 11, verður hátíðarguðsþjónusta í Hjallakirkju. Rétt eins og á Uppstigningardegi þá eiga Hjalla- og Digranessöfnuðir samstarf um helgihald á þessum degi og nú er komið að okkur í Hjallakirkju á taka á móti nágrannasöfnuðinum. Sr. Sigfús Kristjánsson þjónar í guðsþjónustunni og sr. Gunnar Sigurjónsson prédikar. Kórfélagar leiða safnaðarsönginn og Jón Ólafur leikur undir á orgel. Barn verður borið til skírnar í guðsþjónustunni. Að henni lokinni er viðstöddum boðið að þiggja veitingar í safnaðarsal kirkjunnar. Ritningarlestra dagsins má sjá hér.
Á vef Þjóðkirkjunnar, kirkjan.is, segir þetta um Hvítasunnudag:
Hvítasunna er fæðingarhátíð kirkjunnar. Kristin kirkja varð til fyrir kraft heilags anda. Hún birtist sem frumgróði, fyrsta uppskera nýrrar sköpunar, fyrirheit um þann auð, þá ríkulegu uppskeru sem í vændum er þegar vilji Krists og vald verða allt í öllu. Hvítasunnan dregur upp mynd af kirkju Krists sem samfélagi fólks þar sem nýr skilningur vex fram þvert á allt sem aðskilur, sundrar og eyðir, samfélag sem vex í trú og innri styrk. Hvítasunna beinir sjónum til heilags anda sem gerir það að verkum að Guð verður raunveruleiki, raunveruleg, lifandi návist, orð sem hljómar og bergmálar í hjörtum manna og vekur trú sem starfar í kærleika. Guð gefi oss öllum anda sinn, anda Krists, anda skilnings milli manna og þjóða, anda samstöðu, samúðar, samkenndar, virðingar og lotningar, þakklætis og auðmýktar, anda fórnarlundar og hjálpfýsi, anda trúar, anda vonar, anda kærleika, anda og áhrif Jesú Krists – sundruðum heimi og særðum til heilsu og lífs.