Þriðjudaginn 4. október næstkomandi hefst svokallaða Emmaus-námskeið í Breiðholtskirkju en námskeiðið er á vegum Reykjavíkurprófastsdæmis eystra. Emmaus námskeiðið er fyrir öll þau sem áhuga hafa á kristindómnum og/eða vilja dýpka skilning sinn á kristinni trú. Á námskeiðinu er fjallað um ýmsa grundvallarþætti kristinnar trúar og leitast við að ræða af opnum huga það sem hún boðar. Lögð er áhersla á umræður og vangaveltur þátttakenda og íhugað á hvaða hátt trúin tengist okkar daglega lífi. Námskeiðið verður á þriðjudagskvöldum frá kl. 18:30 til 20:30. Byrjað er með sameiginlegri hressingu og síðan er fræðsla og umræður. Kvöldinu lýkur með bæn og íhugun. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru sr. Bryndís Malla Elídóttir og sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir. Námskeiðið er í 6 skipti á þriðjudagskvöldum frá kl. 18:30 -20.30 og er þátttakendum að kostnaðalausu. Skráning á námskeiðið fer fram í Breiðholtskirkju í síma 587-1500 eða með því að senda póst á netfangið: breidholtskirkja@kirkjan.is.

Af hverju Emmaus?
Nafnið á námskeiðinu á rætur sínar að rekja til þorpsins Emmaus sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli. Lærisveinar Jesú voru á ferð til Emmaus eftir páskana og ræddu sín á milli það sem gerst hafði. Þeir voru hugsandi eftir nýliðna atburði og höfðu um margt að ræða. Sjálfur Jesús slóst í för með þeim á göngunni en þeir áttuðu sig ekki á því í fyrstu hver hann væri.