Um síðustu helgi fóru rúmlega 30 krakkar frá Hjallakirkju og Digraneskirkju saman á landsmót æskulýðsfélagana sem var að þessu sinni haldið á Selfossi. Á mótið mættu um 500 unglingar af öllu landinu. Mótið var líkt og í fyrra góðgerðar mót, en í ár var safnað fyrir börn sem eiga um sárt að binda eftir hamfarirnar í Japan í fyrr á þessu ári.
En auk þess að safna og láta gott af sér leiða, skemmtu krakkarnir sér vel í alls konar hópum þar sem hægt var að kynnast ýmsu tengdu japanskri menningu svo sem að búa til Origami og Sushi, skoða Manga teiknimyndir, kynnast japanskri tónlist og prufa japanskar íþróttir. Auk þess var líka hægt að taka þátt í kökuskreytingahóp, spila spil, syngja, dansa og margt fleira.
Á föstudagskvöldinu var svo sundlaug partý þar sem Ingó í Veðurguðunu spilaði og söng fyrir landsmótsgesti á bökkum sundhallarinnar. En á laugardagskvöldinu var það Stuðlabandið sem hélt uppi stemmingunni fram yfir miðnætti.
Á föstudags og laugardagskvöldinu voru helgistundir auk þess sem það var fræðslustund á laugardagsmorgun. Mótinu lauk svo með messu í Selfosskirkju á sunnudeginum, þar sem hljómsveitin Tilviljun? spilaði, en hún sá um tónlist á mótinu.
Mótið tókst á allan hátt vel og skemmtu krakkarnir sér konunglega.
Næsta æskulýðsmót verður svo haldið í Vatnaskógi 18.-20. febrúar 2012 og er nokkuð víst að flest erum við farin að telja niður af tilhlökkun!