Það verður nóg um að vera fyrsta sunnudag í aðventu í Þjóðkirkjusöfnuðum Kópavogs. Eins og fram kemur hér á síðunni þá verður aðventuhátíð fjölskyldunnar í Hjallakirkju kl. 13 og síðan verða aðventukvöld í Digraneskirkju og Lindakirkju.

Í Digraneskirkju verður aðventuhátíð kl. 20 með kór Digraneskirkju. Um er að ræða tónleika með einsöng og fjölbreyttum tónlistaratriðum. Hugleiðingu flytur sr. Magnús Björn Björnsson. Að hátíð lokinni verður kaffisala í safnaðarsal kirkjunnar til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar. Veitingarnar eru í boði Digranessafnaða og Reynisbakarí.

Í Lindakirkju verða aðventutónleikar kl. 20. Kór Lindakirkju syngur undir stjórn Óskars Einarssonar. Fjöldi einsöngvara kemur fram. Sérstakur gestur tónleikanna er Gréta Salóme Stefánsdóttir, fiðluleikari. Flutt verður hugleiðing og lesnir ritningarlestrar. Lesarar eru Bernharður Guðmundsson og Hanna Sóley Helgadóttir. Ókeypis er inn á tónleikana en tekin verða samskot til innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.