Helgileikur sýndur í Hjallakirkju á aðventu í fyrra

Annar sunnudagur í aðventu verður annasamur í Hjallakirkju. Guðsþjónusta verður kl. 11, sr. Sigurjón Árni Eyjólfsson þjónar og félagar í kór kirkjunnar syngja og leiða safnaðarsöng. Organisti er Jón Ólafur Sigurðsson. Ritningatexta þessa sunnudags má sjá hér.

Í sunnudagskólanum eftir hádegi kl. 13 verður mikið um að vera. Krakkar úr skólakór Snælandsskóla koma í heimsókn og sýna helgileik undir stjórn Sigurlaugar Arnardóttur. Í helgileiknum verður jólaguðspjallið bæði leikið og sungið. Að auki munum við öll syngja jólalög og eiga góða stund saman.

Um kvöldið kl. 20 verða svo aðventutónleikar Kórs Hjallakirkju. Kórinn flytur fjölmörg aðventu- og jólalög frá ýmsum tímum og löndum. Nánari upplýsingar um tónleikana er að finna í annarri frétt hér á forsíðunni.

Verið hjartanlega velkomin í Hjallakirkju næsta sunnudag!