Það var sannarlega mikið um dýrðir á aðventuhátíð fjölskyldunnar síðasta sunnudag í Hjallakirkju. Fjölmargir lögðu leið sína í kirkjuna og tóku þátt í skemmtilegri dagskrá. Þegar fyrsta aðventukertið hafði verið tendrað og jólasöngvar sungnir horfðu börnin á jólaþætti með Hafdísi og Klemma. Síðan voru föndruð jólakort í safnaðarsalnum og jólamyndir litaðar. Með föndrinu gæddu viðstaddir sér á piparkökum og kakó. Hátíðin tókst stórvel og var ekki annað að sjá en að gleði og hamingja hafi skinið úr hverju andliti. Þetta var sannarlega gott upphaf á aðventunni.