Sunnudaginn 5. febrúar kl. 16-18 verður stór hátíð hjá fermingarbörnum í Kópavogi. Haldin verður poppmessa í Digraneskirkju með Regínu Ósk og Svenna, eiginmanni hennar, og á undan verða úrslit í spurningarkeppni fermingarbarna en síðustu helgi fóru fram undanúrslit. Lið Lindasóknar og Kársnessóknar keppa til úrslita.

Á sama tíma verður einnig risaflóamarkaður allra fermingarbarna í Kópavogi. Með Flóamarkaðnum gefst tækifæri fyrir fermingarbörn og fjölskyldur þeirra að  losa um pláss í geymslum, kössum eða háloftum og bjóða öðrum að kaupa nytja hluti á kostakjörum. Ágóði af flóamarkaðanum mun renna óskiptur til Innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar.

Hlutir sem koma til greina eru bækur, geisla diskar, myndbönd- og mynddiskar, málverk, leikföng, lampar, skrautmunir, eldhúsáhöld, borðbúnaður og svo framvegis. Einnig eru minni húsgögn, raftæki og vel með farinn fatnaður vel þeginn. Það sem ekki selst á Flóamarkaðnum verður gefið áfram á Nytjamarkað Kristniboðssambandsins í Austurveri.

Mælst er til að öll fermingarbörnin taki þátt og leggi til að minnsta kosti tvo nytjahluti en þeim skal skilað í Hjallakirkju í þessari viku á skrifstofutíma kl. 9:00-16:00 þriðjudaga til fimmtudaga, og föstudaga kl. 11:00-14:00. Munum: Margt smátt gerir eitt stórt og enginn getur hjálpað öllum en allir geta hjálpað einhverjum.

Verið hjartanlega velkomin á spurningarkeppni, flóamarkað og í poppmessu!