Héraðspresturinn okkar í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, mun prédika í guðsþjónustu næsta sunnudags kl. 11, þann 29. apríl. Sr. Íris Kristjánsdóttir þjónar og kórfélagar sjá um að leiða sálmasönginn. Organisti er Jón Ólafur Sigurðsson.

Lexía dagsins er úr 43. kafla Jesaja og þar segir: „Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, hann sem leiddi út vagna og hesta ásamt öflugum her en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur, þeir kulnuðu út eins og hörkveikur. Minnist hvorki hins liðna né hugleiðið það sem var. Nú hef ég nýtt fyrir stafni, nú þegar vottar fyrir því, sjáið þér það ekki? Ég geri veg um eyðimörkina og fljót í auðninni.“ Aðra ritningartexta þessa sunnudags má sjá hér.

Sunnudagaskólinn, sá síðasti þennan veturinn, verður svo kl. 13. Þá ætlum við að hafa það enn skemmtilegra en vanalega, grilla pylsur og fara í leiki. Ef veður leyfir þá verðum við utandyra, annars í neðri safnaðarsal. Allir eru hjartanlega velkomnir.