Að kveldi föstudagsins langa verður píslargöngu Krists minnst við ljóðastund kl. 20 í Hjallakirkju í Kópavogi. Þar lesa hjónin Þórður Helgason og Svanhildur Kaaber þýðingu Þórðar á Sonnettusveig eftir Lisbeth Smedegaard Andersen. Sonnetturnar eru 15 talsins og bera yfirskriftina: Nú stillir alla storma hafa og landa. Þær eru íhugunair um stöðvar Jesú á píslargöngunni, Via Dolorosa.
Jón Ólafur Sigurðsson organisti leikur á orgelið milli erinda og prestar kirkjunnar lesa ritingarlestra sem tengjast sonnettunum.
Sonnettusveigurinn Nú stillir alla storma hafa og landa komu út í Danmörku árið 2004. Höfundurinn er prestur, listasagnfræðingur og skáld og sonnetturnar hlutu strax hljómgrunn þar í landi. Þær hafa meðal annars verið lesnar eða fluttar í kirkjum þar í kyrruviku. Þórður Helgason, þýðandi sonnettusveigsins, er dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hann hefur sent frá sér ljóðabækur, barna- og unglingabækur auk þess að hafa samið fjölda námsbóka. Smásögur hans hafa einnig birst í bókum og tímaritum.