100_0963Hjallakirkja í Kópavogi var vígð á páskadag, 11. apríl 1993 og á því 20. ára vígsluafmæli í ár. Því verður fagnað með hátíðarmessu í kirkjunni á páskadag kl. 14.00 og á eftir býður sóknarnefnd í afmæliskaffi í safnaðarsal kirkjunnar. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, predikar í messunni.

Á þeim 20 árum sem liðin eru síðan kirkjan var vígð hefur gríðarlegur fjöldi sóknarbarna sótt til kirkjunnar í helgihald, félagsstarf eða aðra þjónustu. Sem dæmi má nefna að hátt í 2000 börn  hafa verið fermd í kirkjunni, og fjöldi skírnarbarna í sókninni er iðulega um 100 á ári. Góð aðstaða til félagsstarfs hefur stutt við gott safnaðarstarf fyrir börn, unglinga og fullorðna. Þá starfar öflugur kirkjukór við kirkjuna.

Hjallasókn stofnuð

Hjallasókn var mynduð með skiptingu Digranessóknar árið 1987. Hafist var handa við byggingu kirkjunnar þegar árið eftir.  Formaður byggingarnefndar var Karl M. Kristjánsson. Mikil vinna var lögð í undirbúning kirkjunnar sem er teiknuð af Hróbjarti Hróbjartssyni, arkitekt. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup, sem var sóknarbarn í Hjallasókn, tók fyrstu skóflustunguna þann 19. maí 1991.

Kirkjan var vígð við hátíðlega athöfn á páskadag 1993 kl. 16. Árið eftir hófust framkvæmdir við lóð kirkjunnar sem lauk árið 1995 og árið 1996 var neðri hæð kirkjunnar formlega tekin í notkun, en þar er aðstaða fyrir starfsfólks sem og kennslustofur og fleira. Orgel kirkjunnar smíðaði Björgvin Tómasson og var það tekið í notkun í febrúar 2001.

Áhersla á safnaðarstarf

Allt frá byggingu kirkjunnar hefur verið lögð áhersla á nýtingu hennar fyrir safnaðarstarf og fjöldi manns kemur þangað í hverri viku. Frá upphafi hafa átta prestar starfað við Hjallasókn. Fjöldi annarra starfsmanna leggur einnig hönd á plóg, bæði sem launað starfsfólk, verktakar og sjálfboðaliðar. Hafa sumir starfað lengi í kirkjunni og má þar nefna bæði kirkjuvörð og organista.

Nánari upplýsingar um fyrstu ár sóknarinnar og byggingarsögu kirkjunnar má finna á vef Hjallakirkju.