Fermingarbörn í Hjallasókn söfnuðu 125.100 krónum til vatnsverkefnis Hjálparstarfs kirkjunnar í nóvember. Söfnunin er árviss viðburður og taka fermingarbörn um allt land þátt í henni. Á síðasta ári söfnuðu fermingarbörn á landsvísu um 8 milljónum króna, þar af var 95.662 safnað í Hjallasókn.
Brunnar í þorpum Afríku skipta sköpum fyrir lífsgæði þorpsbúa. Óhreint yfirborðsvatn veldur sýkingum og dregur fjölda barna til dauða á degi hverjum. Brunnvatn er miklu hreinna og því dregur úr smithættu. Einnig fer mikill tími í að sækja vatn, allt að nokkrar klukkustundir daglega. Það er gjarnan hlutskipti ungra stúlkna sem fyrir vikið verða af skólagöngu. Meira vatn gefur einnig aukna möguleika á húsdýrahaldi og ræktun. Því er fullvíst að þeir peningar sem íbúar Hjallasóknar lögðu til vatnsverkefnisins og fermingarbörnin söfnuðu eiga eftir að vega þungt í að bæta líf fjölmargra og jafnvel bjarga mannslífum.
Vel gert, fermingarbörn og íbúar Hjallasóknar!