Á föstudaginn langa kl. 20 verður passíustund í Hjallakirkju þar sem öll tónlistin er sótt í rokkóperuna Jesus Christ Superstar eftir þá Tim Rice og Andrew Llyod Webber. Fluttir verða 14 kaflar úr verkinu.
Hér verður um nokk
uð óvenjulega nálgun á verkinu að ræða. Lesið verður úr píslarsögunni og tónlistin fléttuð inn í á viðeigandi stöðum, enda efniviður verksins allur sóttur í píslarsöguna og má því segja að hér sé um passíuflutning að ræða og í stað rokkhljóðfæra verður leikið með á flygil og orgel.
Þegar gömlu meistarar tónbókmenntanna sömdu sínar passíur þá fóru þeir í raun þessa sömu leið, ritningartextarnir voru sungnir með tónlesi síðan komu aríur og kórar sem voru hugleiðingar út frá textanum. Í þessari uppfærslu verða ritningartextarnir lesnir og í stað hefðbundinna aría koma einsöngs- og kórþættir úr óperunni. Kórkaflarnir eru ýmist í upphaflegri útsetningu Webbers, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur eða Jóns Ólafs Sigurðssonar.
Einsöngvarar verða: Jóhanna Ósk Valsdóttir (María Magdalena), Halldór Másson (Jesú), Árni Jón Eggertsson (Júdas og 1. prestur), Bergvin Magnús Þórðarson (Kaífas og Pílatus), Sveinbjörn Hannesson (Herodes), Torfi Rúnar Kristjánsson (Annas), Andrés Jónsson (2. prestur) og Brynjar Björnsson (3. prestur).
Hljóðfæraleikarar eru Aðalheiður Þorteinsdóttir og Helga Þórdís Guðmundsdóttir. Séra Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir les úr Píslarsögunni. Söngstjóri er Jón Ólafur Sigurðsson.
Aðgangur er ókeypis.