Kór Hjallakirkju - des. 2010-1139Árlegir aðventutónleikar Kórs Hjallakirkju verða sunnudaginn 7. desember kl. 20.

Ókeypis aðgangur er á tónleikana og boðið upp á kakó og piparkökur að tónleikunum loknum.

Fyrir marga hafa þessir tónleikar markað upphafið að aðventu- og jólastemningunni og eru fastur liður í undirbúningi jólanna.

Að venju býður kórinn upp á nokkuð fjölbreytt úrval af aðventu- og jólalögum af eldri og yngri kynslóðinni.

Sigvaldi Kaldalóns samdi á sínum tíma tignarlega einsöngskantötu yfir jólasálm Stefáns frá Hvítadal „Aðfangadagskvöld jóla”, einnig þekkt sem „Kirkjan ómar öll” Dr. Victor Urbancic útsetti kantötuna fyrir kór og verður hún flutt í heild sinni á tónleikunum.

Af öðrum íslenskum lögum má nefna „Jólabæn einstæðingsins” eftir þá félaga Gísla heitinn á Uppsölum og Ómar Ragnarsson, „Maríukvæði” Halldórs Laxness við lag Atla Heimis Sveinssonar og hið fallega aðventuljóð Jóhannesar úr Kötlum „Hátíð fer að höndum ein”.

Kórfélagarnir Kristín Halla Hannesdóttir, sópran, Árni Jón Eggertsson, tenór, Bergvin Magnús Þórðarson, bariton og Gunnar Jónsson, bassi taka að sér einsöngshlutverk með kórnum og Halldór Másson leikur með á gítar.

Prestar kirkjunanr þau Sigfús Kristjánsson og SteinunnArnþrúður Björnsdóttir lesa ljóð.

Guðný Einarsdóttir organisti í Fella- og Hólakirkju sér um orgelleikinn. Söngstjóri er Jón Ólafur Sigurðsson.