Prestar Þjóðkirkjunnar í Kópavogi hafa sent bæjarstjórn bréf þar sem þeir lýsa ánægu með þá ákvörðun bæjarstjórnar að lýsa sig reiðubúna til að taka á móti flóttafólki. Með bréfinu vilja prestarnir bjóða samstarf við undirbúning og móttöku. Bréfið fylgir hér að neðan:
Til bæjarstjórnar Kópavogs.
Við fögnum þeirri ákvörðun bæjarstjórnar þann 8. september s.l. að lýsa sig reiðubúna til að taka á móti flóttafólki. Með þessu bréfi viljum við lýsa áhuga okkar á samstarfi og aðstoð við undirbúning og mótttöku.
Söfnuðir þjóðkirkjunnar eru öflug félagasamtök. Í Kópavogi eru fjórir söfnuðir. Þá sækir fólk á öllum aldri og með ólíkar skoðanir. Á þeim vettvangi gefst tækifæri á málsvarastarfi fyrir flóttafólk og möguleiki að efna til ýmissa viðburða sem gætu tengst komu og aðlögun flóttafólks.
Innan kirkjunnar er víðtæk reynsla af félagsstarfi, reynsla af stuðningi við innflytjendur sem þarfnast aðstoðar, þekking á ólíkum kristnum kirkjudeildum, á öðrum trúarbrögðum en kristnum og reynsla af þvertrúarlegu samstarfi.
Við óskum eftir samtali við þau sem sinna undirbúningi fyrir hönd bæjarins til að sjá hvort og hvernig við getum stutt bæinn í að taka sem best á móti flóttafólki.
Með góðri kveðju