Það verður sannkölluð tónlistarveisla í messu í Hjallakirkju á sunnudag kl. 11. Svo skemmtilega vill til að þar verða allir stjórnendur konur og tveir stúlknakórar syngja. Stúlknakór Reykjavíkur og Aurora syngja messuliði úr Messe brève eftir Charles Gounod og eru liðirnir felldir inn í messuna sjálfa. Að auki verður flutt tónlist eftir César Frank og Gabriel Fauré. Kórstjórar verða Margrét Pálmadóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríðar Soffía Hafliðadóttir. Organisti er Guðný Einarsdóttir og prestur sr. Steinunn A. Björnsdóttir. Fermingarbörn aðstoða við messuna.
Eftir messu verður kaffihressing. Síðan mun kórinn Aurora flytja kafla úr Requiem eftir Gabriel Fauré ásamt öðrum kórperlum.
Sunnudagaskóli verður á neðri hæð kirkjunnar kl. 11. Umsjón hafa Kristín Rut Ragnarsdóttir og Hilmar Einarsson. Hressing eftir samveruna að venju.