Ýmsar breytingar hafa átt sér stað í Hjallakirkju í sumar og því er viðeigandi að upplýsa Hjallasöfnuð hér um helstu breytingar sem hafa orðið.
Organisti
Guðný Einarsdóttir organisti lét af störfum nú í ágúst og hóf störf við Háteigskirkju í Reykjavík. Í hennar stað var ráðin Lára Bryndís Eggertsdóttir, sem er nýflutt heim frá Danmörku og hefur hún nú þegar tekið til starfa. Um leið og við þökkum Guðnýju gott og gefandi starf við söfnuðinn, erum við þakklát fyrir að fá Láru Bryndísi til starfa við kirkjuna okkar og hlökkum til samstarfsins. Hægt er að hafa samband við hana á netfanginu lara@hjallakirkja.is.
Kirkjuvörður
Inga Hrönn Pétursdóttir kirkjuvörður lét af störfum nú í sumar ásamt eiginmanni sínu Árna Erlendssyni. Við þökkum þeim hjónum innilega alla alúð og vinnusemi í þágu kirkjunnar undanfarin ár og óskum þeim velfarnaðar áfram. Til starfa hefur tekið Guðrún Sigurðardóttir og mun hún sjá um kirkjuvörslu, móttöku og opið hús eldri borgara – „Glatt á Hjalla“. Við hlökkum einnig til samstarfs við Guðrúnu og hægt er að hafa samband við hana á netfanginu gudrun@hjallakirkja.is.
Æskulýðsstarf
Sólveig Ragnarsdóttir sem hefur starfað við æskulýðsstarf kirkjunnar um árabil mun hafa yfirumsjón með æskulýðsstarfi kirkjunnar í vetur og er hennar starf liður í stefnu kirkjunnar að efla allt æskulýðsstarf og tengsl við ungt fólk í Hjallasöfnuði og fögnum við því að hún verði með aukna ábyrgð á þessum mikilvæga vettvangi sem æskulýðsstarfið er innan kirkjunnar. Hægt er að hafa samband við hana á netfanginu solveig@hjallakirkja.is.
Prestar
Sóknarprestur er sr. Sunna Dóra Möller. Hægt er að bóka viðtalstíma á netfanginu sunna@hjallakirkja.is og í gegnum viðtalsbeiðni á heimasíðu kirkjunnar undir „Hjallakirkja“ – „Starfsfólk/prestar“. Síminn hennar er 6942805.
Prestur er sr. Karen Lind Ólafsdóttir. Hægt er að bóka viðtalstíma á netfanginu karen@hjallakirkja.is og í gegnum viðtalsbeiðni á heimasíðu kirkjunnar undir „Hjallakirkja“ – „Starfsfólk/prestar“.
Leiga á safnaðarsal
Við bendum á að hægt er að leigja safnaðarsal kirkjunnar undir veislur, fundi og aðra viðburði og nú höfum við sett upp sértsakan hlekk á heimasíðunni undir „Hjallakirkja“ – „Leiga á safnaðarsal“ Guðrún kirkjuvörður tekur við beiðnum og svarar þeim eins fljótt og auðið er.
Framundan
Nú eftir sumarfrí er allt að færast í eðlilegt horf hjá okkur og verður vetrardagskrá birt von bráðar á heimasíðu og við í Hjallakirkju hlökkum til að taka á móti ykkur í kirkjuna ykkar og það er ósk okkar og vilji að öllum liði vel sem til okkar koma og upplifi notalegt andrúmsloft og gott og öflugt kirkjustarf í lifandi kirkju sem er opin öllum.
Við bendum á að Hjallakirkja er á Facebook: facebook.com/hjallakirkja og á Instagram: instagram.com/hjallakirkja og hvetjum við alla til að smella einu „læki á okkur“ eða fylgja okkur á Instagram til að sjá hvað er um að vera hjá okkur í hverri viku!
Sjáumst í vetur!
Prestar og starfsfólk Hjallakirkju.