Við hjónin göngum reglulega saman í Laugardalnum með 10 ára gamla labradorhundinn okkar hann Trukk. Hann nýtur þess að fara á göngu enda holdgervingur nútvitundar, er ekkert að velta fyrir sér gærdeginum eða morgundeginum, heldur röltir með okkur áfram og þefar öðru hvoru af næsta grastrái eða brunahana sem á vegi hans verður.

Við hjónin spjöllum oft töluvert á þessum göngum okkar um daginn og veginn og nú á fimmtudaginn var mér hugleikið 100 ára fullveldi Íslands sem við héldum upp á í gær, 1. desember og ég spurði að bragði hvort hann hefði hugleitt það hvort við ættum einhverja sameiginlega von sem þjóð í dag, eitthvað sem sameinar okkur og blæs okkur byr í brjóst, líkt og fyrir 100 árum síðan þegar við stóðum saman sem þjóð á fallegum desember degi í Reykjavík og glöddumst yfir þessum árangri sem hlaust af þrotlausri baráttu fólks sem hafði trú á því að við gætum staðið ein og óstudd og horft áfram til vonarríkrar framtíðar, sjálfstæð og sjálfbær.

Eiginmanninum varð strax svarað að bragði, með smá húmorísku ívafi: Jú, íslenska karlalandsliðið í fótbolta. Það hefur sameinað okkur og gefið okkur von og við fyllumst miklu þjóðarstolti og örlítilli þjóðerniskennd þegar þeir leika.

Jú, heilmikið til í þessu. Það er rétt að þegar okkur gengur vel á erlendri grundu í keppnisíþróttum þá er veisla og við fylgjumst með spennt og höfum óbilandi trú á íslenskri þjóð, það gerist reyndar líka þegar við keppum í Eurovision þó árangurinn þar sé hugsanlega lakari en í íþróttunum, þá höfum við alltaf þessa óbilandi trú og von að nú sé komið að stóra sigrinum, stundum nást þeir, stundum ekki. En vonin er alltaf til staðar.

 Mér varð örlítið hugsað um þetta nú undir helgina, þetta með vonina, baráttuviljann, stoltið og hugsjónirnar og um fram allt hvað felst í að vera góð fyrirmynd fyrir aðra. Það er eðlilegt á tímamótum sem þessum þegar við fögnum 100 ára fullveldi að við hugleiðum þessi gildi og hver við viljum vera og hvernig við viljum vera. Hugleiðum hver er ábyrgð okkar gagnvart hvert öðru, samferðafólkinu okkar, landinu okkar og umhverfinu sem okkur er falið að hlúa að.

Ég rakst á grein sem var skrifuð í Þjóðvijanum þann 23. júní árið 1911 og er ræða Jóns Jónssonar sagnfræðings, flutt af svölum Alþingishússins þann 17. júní á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar. Eins og við vitum flest þá var Jón Sigurðsson okkar ötulasti talsmaður sjálfstæðibaráttunnar og átti stóran þátt í fullveldisáfanganum, Jón forseti eins og hann var ávallt kallaður. Í þessari ræðu Jóns Jónssonar er honum tíðrætt um, hve bjart sé yfir minningu þess hvað Jón hafi verið fyrir þjóð sína og afrekað fyrir land og lýð.

Einnig er honum tíðrætt síðar í ræðu sinni um fyrirmyndir og talar um að í Jóni Sigurðssyni hafi íslenska þjóðin lært að þekkja sjálfa sig og skilja sjálfa sig og trúa á sjálfa sig. Hann sé hvort tveggja í senn ímynd þjóðarinnar og fyrirmynd þjóðarinnar.

Hann segir að Jón hafi fyrst og fremst verið sannur Íslendingur, hjá honum komi þjóðareinkennin, Íslendingseinkennin, skýrar fram í heild sinni en hjá nokkrum öðrum einstökum manni, og í svo fagurri mynd, að allir stari undrandi og sjá það og skilja, að það er ekki minnkunn og vansi, heldur sæmd og tign, að vera Íslendingur – Sannur Íslendingur.

Jón heldur áfram og segir að það sé fyrir sakir þessara kosta, að hann hafi gerst fyrirmynd þjóðarinnar, sem allir vildu hvað helst kjósa sér að líkjast, sem allir vitandi eða óvitandi stæla og vitna til í stóru og smáu.

Og þótt engum hafi enn tekist að ná honum, þá hefur hann samt örvað menn til atorku, starfa og dugnaðar í þarfir þjóðarinnar. Hann sé orðinn nokkurs konar hugsjónafyrirmynd, sem allir hafi augun á.

Það sem er svo skemmtilegt við þessa ræðu Jóns um Jón forseta er að hann gerir sér alveg grein fyrir þeirri hættu sem getur skapast þegar menn eru of hátt upp hafnir, jafnvel til skýjanna og segir að það sé svipað um hugsjónirnar og stjörnurnar að það geri sér enginn von um að ná í þær og festa hendur á þeim. En því aðeins að halda menn í horfinu og ná heilu í höfn, að þeir hafi þær til hliðsjónar og leiðbeiningar í ferðavolki lífsins.

Jón segir að Jóni forseta hafi ekki þótt hundrað í hættunni þótt lýðhyllingar hafi ekki notið við, en hitt hafi honum verið óbærileg tilhugsun, að glata virðingunni fyrir sjálfum sér. Þess vegna hafi hann jafnan verið sjálfum sér og sannfæringu sinni trúr og tryggur í öllum greinum.

Aðeins síðar í ræðunni segir hann þetta: “Jón hafi ekki setið að svikráðum við mótstöðumenn sína, því síður við fylgismenn sína. Hann hafi ekki farið neina krókavegi, engar myrkragötur, hafi ekki læðst aftan að mönnum með grímu fyrir andliti og eiturvopn í höndum. Hann hafi gengið beint framan að mótstöðumönnum sínum með opinn hjálm og skygðan skjóma. Jón hafi ekki farið með neinar ósæmilegar dylgjur undir hjákátlegum dularnöfnum, sem enginn kann deili á, ekki neinar nafnlausar árásir haturs og lyga. Hann hafi sagt skoðum sína skýrt og afdráttarlaust, halli aldrei vísvitandi réttu máli, hver sem í hlut á, fari aldrei í felur með neitt, enda þarf hann engu að leyna, því í hjarta hans eru engin svik fundin”.

 Ég viðurkenni að þessi ræða greip mig, því ég held að þegar við stöndum saman sem þjóð á þessum tímamótum og horfum til baka aftur um 100 ár með það í huga að horfa fram á veginn og hugsa hvert við viljum stefna og hver við ætlum að vera, þá fæ ég þá tilfinningu líkt og okkur hafi rakið af leið. Við höfum gleymt, eða kannski viljum við ekki muna og við könnumst ekki lengur við þau sem á undan okkur gengu, það hefur ekki breyst á 100 árum hvernig það er að vera manneskja og sönn fyrirmynd. Það er enn þá eins og það var fyrir 10 árum, 50 árum, 100 árum jafnvel 2000 árum.

Við leyfum okkur að tala markalaust um náungann og könnumst ekki lengur við ábyrgð okkar og vald í umræðu, og gildir engu hvernig umræðan fer af stað, hvort hún er tekin upp leyfislaust á bar í Reykjavíkurborg, í umræðukerfum netmiðla eða á kaffistofunni.

Það er ekki auðvelt að sjá hvernig okkar kynslóð ætlar sér að vera fyrirmynd fyrir þær komandi, þegar við kunnum ekki þessi grunngildi manngæsku og kærleika, við horfum upp á valdið berskjaldað á opinberum vettvangi og hugsum: Hvernig get ég treyst þeim sem með ábyrgðina fara, þegar svona er komið fyrir og þar sem mikið vantraust ríkir í samfélagi fólks, þá er sjálfstæði okkar og sjálfsmynd í hættu.

Öll þau gildi og allt það sem barist var fyrir, er unnið fyrir gíg þegar við höfum gleymt hvaðan við komum, gleymt hvað við fengum að gjöf í sjálfstæði og lýðveldi þjóðar og gleymt þeim fórnum sem voru færðar af fólki sem sýndi þann kjark að ryðja veginn fyrir okkur í átt að því samfélagi sem við eigum í dag.

 Við sem stöndum hjá og horfum upp á hildarleikinn getum ekki annað en verið sorgmædd og um leið hugsað: Hvað eigum við þá sameiginlegt, hver er okkar sameign, hver eru okkar sameiginlegu gildi, hvað er það sem gerir okkur að þjóð og hvers væntum við fyrir börnin okkar og þær kynslóðir sem munu taka við af okkur. Hverju erum við að skila af okkur?

Ég held að það sé virkilega brýnt fyrir okkur að staldra við á þessari aðventu, á þessu fullveldisafmæli og líta í eigin barm og skoða hvað það er sem við erum að gera og hvernig við getum fundið okkur aftur. Fundið mannkærleika og visku til að gera betur. Fundið aftur hvernig við getum verið sjálfstæð og heilsteypt þjóð sem stendur saman um að rækta grunngildi samfélagsins og rækta okkur sjálf og börnin okkar. Hlúa að því sem mestu máli skiptir.

Munum að með sjálfstæði okkar og fullveldi fengum við ekki óheft leyfi til að gera það sem við viljum og koma fram við fólk eins og okkur hentar. Við fengum í arf ábyrgð og vald og við þurfum að vera því vaxin og standa undir því að vera sjálfstæð. Í dag erum við eins og börn með brotna sjálfsmynd, þar sem gildismat, menning og sjálsmynd þjóðar eru í hættu og víkja fyrir valdmennsku, hroka og mannfyrirlitningu.

Sjálfstæð manneskja og sjálfstæð þjóð er stolt, hún er kærleiksrík og óttast ekki náungann, heldur umfaðmar hann, af því hún þekkir sjálfa sig, uppruna sinn og gildi. Sjálfstæð þjóð óttast ekki áhrif annarra þjóða heldur tekur þeim fagnandi og hlúir að. Hún þarf ekki að níða aðra til að upphefja sig, hún fer ekki krókavegi eða myrkragötur heldur fetar í fótspor Jóns forseta, hún þarf engu að leyna því í hjarta sjálfstæðar og heilbrigðrar þjóðar eru engin svik að finna. Slíkri þjóð treysta þegnar hennar og vita að þeim sem er treyst fyrir valdinu, munu vinna af heilindum af því að þau deila saman þessum gildum.

Biðjum góðan Guð að gefa að okkur lánist að gera betur og íhuga þessi gildi á komandi aðventu þegar bíðum komu barnsins í Betlehem, sem sameinar alla sem vilja, við jötuna undir merkjum kærleikans og sannleikans. Það er þar sem himinn og jörð mætast raunverulega og við fáum tækifæri til að verða aftur heil.

Í Jesú nafni, amen.