Þegar hugsað er til enska hugtaksins „spoiled” þá felur það í sér merkinguna að vera spilltur, en sömuleiðis að vera dekraður. Talandi um að vera spilltur, vissuð þið þá að spilling er minnst í Danmörku? Ísland er í fjórtánda sæti yfir lönd þar sem minnst spilling ríkir. Ísland er reyndar spilltasta land allra Norðurlanda. Mesta spillingin í heiminum er í Sómalíu.
Lönd lýðræðis eru ekki eins spillt og lönd einræðis, kemur ekki á óvart. Og hvar er svona kannað? Hjá Transparency International sem eru óopinber samtök stofnuð árið 1993, staðsett í Berlín í Þýskalandi. Þetta eru regnhlífarsamtök, samtök sem hafa mörg félög innan sinna vébanda.
Við getum reyndar andað léttar út frá þessari könnun því við erum greinilega ekki mjög spillt á heimsvísu, verðum þó að herða aðeins róðurinn því síst er gott að vera spilltust meðal Norðurlandaþjóða. Við búum líka við þann munað að vera lýðræðisþjóð en slíkar þjóðir hafa það að leiðarljósi að hlusta á rödd fólksins t.d. í stórum ákvörðunartökum sem lúta að hagsmunum heildarinnar, ekki satt?
Til að átta okkur betur á því við hvað við búum þá er Sómalía, sem áður sagði, spilltasta ríki veraldar skv. fyrrnefndri könnun. Það er land sem lengi hefur þurft að þola stríð og hungursneyð og einræði og aðrar hörmungar, einræði sem stjórnskipulag er nefnilega stór þáttur í hörmungum þjóða, þegar fáar eða ein manneskja fara með öll völd, aldrei hlustað á fólkið, allir þjást m.a. sökum tíðra borgarastyrjalda.
Það er fásinna að aðeins ein manneskja geti stýrt heilli þjóð, allir einræðisherrar hafa fallið í sömu gryfjuna, að líta á sig sem ósnertanlega hátt upphafna guði. Og hugsið ykkur að enn er þetta stjórnskipulag til og það á 21. öldinni, það var til á tímum Jesú, hann fæddist inn í þetta skipulag, það hefur verið til frá örófi alda.
Maður spyr sig hversu lengi ætlar mannkyn að læra af reynslunni. Við viljum stundum gagnrýna það þegar verið er að minna á sömu gildin aftur og aftur, á réttlæti, á samvitund, á kærleika, en það er engin tilviljun vegna þess að við getum verið alveg óstjórnlega fljót að gleyma. Það að enn séu til einræðisríki segir okkur talsvert um brigðult minni mannskepnunnar.
Gott er að halda því til haga, þegar um lýðræði er fjallað, þá er það sem blóm er þarf látlausa vökvun, það er auðveldlega hægt að glata því sofni fólk á verðinum, það þarf alltaf að veita ráðandi öflum aðhald og minna þau á, því við erum öll mennsk, í okkur má finna allt hið versta og allt hið besta.
Ég ætla að bjóða ykkur upp á fjall, við skulum fara upp á fjall nokkurt nálægt spænska bænum Totalan á Spáni. Þar á fjallstoppi varð mikill harmleikur á dögunum þegar tveggja ára gamall drengur, Julen að nafni, féll niður um brunnop og alveg niður á 70 metra dýpi, brunnur sem ekki var búið að byrgja.
Julen lést, hann lá þarna í 13 sólarhringa, foreldrarnir höfðu verið í fríi með drengnum sínum, þau höfðu misst áður annan dreng úr hjartveiki. Það er með hreinum ólíkindum hvað hendir fólk í lífi þess og hvað það þarf að takast á við. Það er ekki hægt að óska neinum þess að verða fyrir harmi sem þessum. En eins og pistlahöfundur Jón Sigurður Eyjólfsson orðaði það svo vel í korni á dögunum bjóða harmleikir oft upp á nýja von. Það er alveg satt.
Þarna á toppi fjallsins á Spáni var með samtakamætti, bæði íbúa Totalan, og sérfræðinga víðs vegar að úr heiminum, unnið kraftaverk við að ná Julen heitnum upp úr brunninum svo foreldrarnir gætu fært hann til hinstu hvílu við hlið bróður hans sáluga.
Þarna var unnið verk á fáeinum dögum sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið nokkra mánuði að vinna. Veltum því fyrir okkur ef slíkur samtakamáttur yrði virkjaður við fleiri þær aðstæður harmleikja sem varpa skugga á nútímann, hægt er að nefna tíð sjálfsvíg ungs fólks, þegar börnin falla ofan í hyldýpi ofneyslu, eða þegar tekið skal á vanlíðan ungra sem eldri er kemur að samanburðarumhverfi og „lækkeppnum” á, að ekki sé minnst á spillingu í heimi hér.
Ég leyfi mér að fullyrða að samtakamáttur sá sem hefur ríkt við slysstað Julen á fjallinu um daginn hefur ekki verið drifinn áfram af ásökunum, ábendingum um ábyrgð, eða hvað eina því sem finna má í orðræðu þeirra er leita að sökudólgum. Þá hefði í fyrsta lagi ekki verið um samtakamátt að ræða og í öðru lagi hefði það ekki gengið þetta hratt fyrir sig að ná til Julen.
Þetta er eitt af því sem við þurfum að vara okkur á ef lýðræðið skal áfram þrífast, það er að varðveita samtakamáttinn og eðli hans, við megum ekki verða svo dekruð í hugsunarhætti eða „spoiled” að ábyrgðin eigi sjaldnast að vera mín heldur einhverra annarra, að réttur okkar sé sá að standa álengdar og segja öðrum fyrir verkum.
Þannig virkar ekki samtakamáttur, þannig virkar ekki lýðræði, ég hef ekki séð neinn árangur hljótast af því ef maður er ósammála einhverju eða það er eitthvað sem hentar manni ekki þá sé besta leiðin að segja sig bara úr því eða koma sér í burtu.
Ég er oft ósáttur við það sem fram fer í þessu þjóðfélagi okkar, en ef ég ætti þess kost að skrá mig úr því myndi ég aldrei gera það því málin ganga ekkert hraðar fyrir sig með þeim hætti. Það má alltaf leggja lið, ef ekki beinlínis með verkum þá með hugmyndum, uppbyggilegum skoðunum eða heiðarlegum bænum.
Að endingu langar mig svo til að bjóða ykkur upp á annað fjall, fjall ummyndunarinnar, þangað sem Jesús tók með sér nokkra lærisveina úr innsta hring og leyfði þeim að líta inn í himininn, leyfði þeim að horfa til þess sem framundan var og föstutíminn, sem senn hefst, tjáir. Þar er fjallað um þjáningu og dauða Jesú, harmur sem gat af sér nýja von.
Pétur lærisveinn vildi dvelja á fjallinu, bara vera þar, umvafin magnaðri himneskri sýn, en Jesús leiddi þá lærisveina aftur niður fjallið, förum og gjörum, leggjum lið, hjálpumst að, hann minnti þá á að geyma með sér sýnina þar til Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum, hann minnti þá á ábyrgð þeirra og orðvendni þar sem listin að hemja sig býr.
Amen