Mér hefur alltaf fundist guðspjallstexti dagsins frekar erfiður viðureignar og ég man þegar ég var að stýra sunnudagaskóla fyrir norðan og þessi saga kom upp, þá sneiddi ég fram hjá henni vísvitandi. Það er ekki auðvelt að standa fyrir framan börn og útskýra þetta hlutskipti Péturs.

Hann lofar vini sínum að fylgja honum og trúir því örugglega af öllu sínu hjarta að honum takist það. Svarið sem hann fær er eflaust ekki það sem hann átti von á. En viðbrögð Jesú eru þessi:.“Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig”

Þetta svar er svo mikið á skjön við það sem við kennum börnunum okkar þegar kemur að umræðu um góð samskipti og vináttu.

En ef ég set mig í spor Péturs og ímynda mér mín eigin viðbrögð í svona aðstæðum, hefði ég eflaust orðið sár, leið og jafnvel örlítið móðguð gagnvart viðbrögðum vinar míns við þessari stuðningsyfirlýsingu minni, þar sem einlægt markmið mitt er að standa með honum. Mér hefði fundist að hann ætti vera örlítið glaður og jafnvel þakklátur mér fyrir að vilja vera til staðar fyrir hann á erfiðum tímum.

Þegar við lesum áfram í guðspjöllunum, lengra inn í píslarsöguna kemur svo á daginn að Jesús hefur rétt fyrir sér. Eftir að hann hefur verið handtekinn, afneitar Pétur Jesú þrisvar sinnum, gengst ekki við því að hann hafi þekkt hann og fylgt honum þegar hann er spurður og haninn galar þrisvar.

Þegar Pétur er kominn inn í aðstæður þar sem hann óttast um sín eigin afdrif gugnar hann. Og í stað þess að standa með vini sínum og fylgja honum alla leið á krossinn, þá kýs hann að vernda veru sína og líf og þegar hann uppgötvar hvað hann hefur gert, grætur hann.

Ótti! Rannsóknir við institute of Neuroscience and Psychology við háskólann í Glasgow benda til þess að grunntilfinningar okkar séu í rauninni bara fjórar og þrjár þeirra eru það sem kalla má neikvæðar tilfinningar: Reiði, hryggð og ótti. Eina jákvæða tilfinningin er gleði og ánægja.

Það er áhugavert að aðeins ein af fjórum grunntilfinningum okkar sé jákvæð og hinar neikvæðar. Þá mætti halda því fram í kjölfarið að við þyrftum að hafa töluvert mikið fyrir gleðinni og um leið að láta hinar þrjár ekki taka yfir í sálarlífinu okkar.

Ef við skoðum óttann betur, þá er það ljóst að allar ákvarðanir okkar sem eru teknar út frá ótta geta aldrei verið farsælar.

Oftar en ekki eru það ákvarðanir sem við sjáum eftir síðar, höfum sektarkennd yfir eða upplifum skömm.

Ótti er afskaplega vond tilfinning og það vill enginn lifa í ótta eða láta óttann stýra sínu lífi. Það hlýtur alltaf að vera markmið okkar að lágmarka þessa grunntilfinningu. Svo kann það að vera að það sé hugsanlega ofar mannlegum mætti í aðstæðum þar sem líf okkar er í húfi.

Fyrstu viðbrögð hljóta alltaf að vera að vernda lífið, það er einfaldlega það sem við höfum lært í gegnum milljón ára þróunarsögu, þegar lífi er ógnað, segir heilinn okkur að flýja og komast í skjól. Það er sannarlega ekki á allra færi að ganga teinréttir út í opinn dauðann fyrir góðan málstað.

Það sem er svo merkilegt í þessu öllu saman, er það að Jesús veit þetta og hann er ekki að álasa Pétri fyrir það. Hann er ekki að ala á sektarkennd eða skömm. Hann bara talar sannleikann inn í aðstæður af því að hann veit að Pétur er mannlegur og hann veit að vinur sinn getur ekki séð sín eigin viðbrögð fyrir þegar hann er kominn í lífsógnandi aðstæður.

Jesús veit líka að leiðin hans er leið sem hann verður að fara einn og hann er ekki að gera kröfur um að vinir hans fylgi honum í opinn dauðann. Eina sem hann biður um er að þeir vaki með honum og biðji. Hann fer fram á nærveru og nánd þegar hann veit að lokin nálgast.

Við gerum öll mistök í lífinu. Það er bara það sem kemur með pakkanum þegar við fæðumst. Það er það sem gerir okkur mannleg. Ég hef ekki enn hitt manneskju sem hefur lifað fullkomnu lífi. Ef hún er til, þá myndi ég gjarnan vilja hitta hana og spjalla, það væri mjög áhugavert.

Sum mistökin okkar eru smávægileg og önnur stór og geta haft afleiðingar. Við gerumst sek um dómgreindarbrest, fylgjum skuldbindingum okkar ekki eftir eða gerumst sek um óheiðarleika.

Stóra myndin er sú að við getum ekki breytt því sem hefur gerst. Við fáum ekki tækifæri til að bakka aftur í tímann. Þá kemur inn sjálfsvitund okkar sem sprettur út frá því þegar við vitum að ófullkomleiki okkar er hluti af því að vera manneskja.

Góð sjálfsvitund getur lágmarkað óttann í okkar lífi. Hún framkallar þrautseigju innra með okkur sem gerir okkur kleift að rísa hraðar upp eftir að okkur hefur orðið á í messunni.

Sjálfsvitund og iðrun fylgjast oft að. Ekki í þeim skilningi að við göngumst ekki við ábyrgð okkar á fyrri misgjörðum.

Heldur í þeim skilningi að við tryggjum það, að við berjum ekki svo hart á okkur sjálfum að við eyðileggjum nútíðina eða framtíð okkar. Við fáum betur skilið, að það að gera mistök gerir okkur ekki að slæmum manneskjum.

Með þessu getum við frekar einblínt á gjörðirnar sjálfar en ekki persónu okkar.

Þannig myndast rými fyrir heilbrigða sektarkennd frekar en skömm. Sektarkenndin, þegar hún er heilbrigð hefur nefnilega möguleika á því hvetja okkur til verka, að gera betur og bæta fyrir það sem hefur misfarist.

Skömmin hefur þveröfug áhrif. Hún segir þér að það sé eitthvað grundvallandi að þinni veru og þínu gildi sem manneskja. Hún lægir þig og setur þig niður. Áhrifin geta verið að sá eða sú sem lifir í skömm festist í reiði eða sjálfsvorkunn og hvorug tilfinningin er hvati til að gera betur eða rísa upp. Allt þetta lamar og kemur í veg fyrir að við fáum lifað lífi í fullri gnægð.

Við vitum úr guðspjallasögunni að Pétur fékk sannarlega uppreist æru. Honum fékk annað tækifæri og hann varð einn af hinum stóru í kirjusögunni, endaði reyndar sjálfur á krossinum í tíð Nerós Rómarkeisara eins og kristin saga greinir frá.

Hugsanlega nýtti hann sína reynslu til góðs. Hann sá að sér eftir að hafa verið um stund berskjaldaður, mannlegur og hann grét þegar hann áttaði sig einmitt á eigin mennsku og breyskleika. Í stað þess að fyllast skömm hélt hann áfram.

Hugsanlega af því að hann þekkti sjálfan sig, hafði sjálfsvitund sem átti rætur sínar í því að Jesús þekkti hann líka og vissi hver hann var. Pétur átti vin sem var ekki meðvirkur, talaði hreint og beint en elskaði hann skilyrðislaust og þau samskipti hafa að öllum líkindum orðið Pétri til lífs.

Júdas vinur Jesú sem sveik hann líka, reyndar á annan hátt, nýtti ekki það tækifæri sem honum var gefið með því að vera samferða Jesú og hlýða á það sem hann hafði fram að færa og læra af því, heldur fylltist hann skömm og gat ekki lifað með gjörðum sínum og hengdi sig.

Skömmin í hans lífi hafði lamandi áhrif og hann sá enga leið aðra út úr sínum aðstæðum.

Hér eru tveir menn og vinir, báðir mennskir og gera mistök og örlög þeirra ólík. Saga af sekt og skömm. Upprisu og dauða. Sorg og gleði.

Ég nefndi einmitt í upphafi gleðina sem eina af fjórum grunntilfinningum okkar og hve oft það kann að vera erfitt að kalla hana fram mannlegum veruleika og breyskleika.

Ég held að enginn vilji lifa gleðilausu lífi. Við viljum geta brosað og lifað áhyggjulaus og notið hvers dags líkt og hann væri okkar síðasti.

Í bókinni um gleðina sem segir frá samræðum þeirra Dalai Lama og Desmond Tutu segir þetta í lok bókarinnar og ætla ég að leyfa rödd þeirra félaga vera lokaorðin hér í dag:

„Mótlæti, veikindi og dauði eru raunveruleg og óhjákvæmileg fyrirbæri. Við veljum hvort við viljum bæta þjáningunni sem við sköpum í eigin huga og hjarta, valkvæmri þjáningu, ofan á þessar óhjákvæmlegu staðreyndir lífsins.

Því meira sem við veljum í staðinn að lækna okkar eigin þjáningu, þeim mun færari verðum við að snúa okkur að öðrum og hjálpa þeim að takast á við þeirra þjáningar með hláturmildum, tárvotum augum hjartans. Og því meira sem við lítum burt frá eigin mikilvægi til að strjúka tár úr augum annarra, þeim mun færari – þótt ótrúlegt sé – verðum við í að umbera, græða og hefja okkur upp yfir eigin þjáningar. Þetta var hið raunverulega leyndarmál þeirra félaga að baki gleðinni.“

Góður Guð gefi að við öll fáum uppgötvað gildi okkar óháð eigin mistökum og hann gefi að við getum öll fundið leyndarmál og uppsprettu gleðinnar í okkar lífi.

Sr. Sunna Dóra Möller