Og Guð leit allt sem hann hafði gert, og sjá, það var harla gott.
Og það varð kvöld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.”

Þessi texti kemur úr sköpunarsögunni í fyrstu Mósebók og lýsir viðbrögðum Guðs eftir að hann hefur á 6 dögum skapað allt sem er og lítur yfir sköpun sína og er sáttur. Jafnvel meira en sáttur, hann segir hana góða.

Fyrstu viðbrögð Guðs í þessu forna ljóði sem er lofsöngur til sköpunarinnar allrar, er að hún sé í eðli sínu góð. Sköpunin er hluti af Guði og Guð hluti af henni og þar af leiðandi heilög.

Þessi orð fela líka í sér að allt sem er, er gott í allri veru sinni. Allt sem kemur í heiminn er grundvallandi gott. Skilaboð sem í dag fela í sér djúpstæðan og mikilvægan boðskap.

Boðskapur, sem hver manneskja sem kemur inn í þennan heim ætti að taka til sín en hann segir við þig að allt við þig sé gott, bæði líkaminn þinn og sálin þín.

Það sem er merkilegt í ljósi sögunnar, er það að kristin trúarhefð hefur skilað okkur þeim arfi að líkaminn sé neikvætt afl. Allt sem honum fylgir og allar þarfir hans eru neikvæðar, jafnvel óæskilegar. Reyna skal hið ítrasta til temja holdið svo andinn verði frjáls.

Hefðin hefur alla tíð skipt heiminum upp í tvennt, gott og illt, anda og efni, karla og konur, þræla og frjálsa, okkur og hina. Allt sem er slæmt hefur verið tengt líkamanum, allt sem er gott sálinni og andanum.

Til að andinn sé hreinn, þarf að iðka meinlæti, jafnvel heimsafneitun, forðast allt sem mengar og saurgar andann og það er gert með því að hafa taumhald.

Berja skal duglega á holdinu til að nálgast Guð. Önnur leið er ekki fær.

Líkamsótti gegnsýrir menninguna okkar. Líkaminn okkar er áþreifanleg sönnun þess að við erum dauðleg. Við þurfum ekki annað en að líta í spegil til að sjá áþreifanlega merki tímans. Húðin tognar, hrukkur myndast. Líkaminn eldist án þess að við fáum nokkuð að gert.

Til að milda áhrifin sjá marðkaðsfyrirtæki okkur fyrir ýmsum ráðum til að fresta hinu óhjákvæmilega, áhrifum tímans. Með hinum ýmsu aðferðum fegrunariðnaðarins, getum við reynt að komast hjá því að við okkur blasi í speglinum manneskja sem er tímanum háð.

Alls staðar í almannarýminu fáum við þau skilaboð að líkaminn eins og hann er skapaður, sé ekki fullnægjandi, hann þurfi að laga, yngja, fegra og grenna. Flóttinn, það að þurfa ekki að horfast í augu við áhrif tímans verður eftirsóknarverður. Það ber að hefja sig yfir efnið, komast hjá því að vera manneskja af holdi og blóði, með öllum tiltækum ráðum.


Líkamsóttanum fylgir oftar en ekki líkamssmánun. Við sjáum víða merki um slíkt í nútímasamfélagi. Það er orðin viðtekin venja á samfélagsmiðlum að hafa skoðanir á útliti og líkamsástandi annarra. Líkamssmánunin hefur þau áhrif að hún leiðir til samanburðar og framkallar skömm hjá þeim sem fyrir henni verða.

Þegar við erum full skammar yfir eigin líkamsástandi, þá hljótum við að reyna annað hvort að gera það sem í okkar valdi stendur til að laga það sem við teljum vera að í okkar fari eða fyllumst félagskvíða og forðumst samneyti og samskipti við annað fólk.

Það er engin launing að líkamssmánun beinist í ríkum mæli að líkömum kvenna, þó það sé að sjálfsögðu ekki algilt.

Það er líka engin launung að sömu samfélagsáhrifin eru einn orsakavaldur að því að einstaklingar sem fyrir líkamssmánun verða geta þróað með sér átröskunarsjúkdóma sem telst sem einn banvænasti geðsjúkdómur í nútímanum þegar litið er til dánartíðni.

Í bókinni “Horfin inn í heim átröskunar” þar sem Ásrún Eva Harðardóttir segir frá sinni reynslu af því að vera með átröskun og Þórdís Rúnarsdóttir sálfræðingur fjallar um sjúkdóminn á klínískann hátt segir frá þeim merkilega hlut að átröskun hafði aldrei verið greind á Fidjieyjum að neinu ráði fyrr en 36 mánuðum eftir að fólk þar fór að horfa á sjónvarp en sjónvarpsnotkun á Fidji hófst ekki fyrr en árið 1995.

Tíðni átröskunar og hegðunar sem sem tengist átröskun tók gífulegan kipp um 36 mánuðum síðar. Árið 1998 sögðust 17% stúlkna á Fiji kasta upp til að stjórna þyngd sinni en einungis 3% sögðust gera það 1995. Um 29% stúlkna fengu hátt hátt skor á kvarða sem mælir átröskunarheðgun árið 1998 en einungis 13% árið 1995. Þarna er um talsvera aukningu að ræða á einungis þremur árum.

Þetta er mjög merkilegt, en þó er rétt að taka það fram að það væri sannarlega mikil einföldun að halda því fram að fjölmiðlar og áhrif samfélagsins séu hér eini orsakavaldurinn, því ef svo væri þá væru líklega flestar konur meira og minna haldnar alvarlegri átröskun.

Það sem réttara er að segja, er að samfélagsáhrif og umfjöllun fjölmiðla hafi umstalsverð árif á sjálfsmynd margra kvenna og stúlkna og ýti undir megrunaræði og hina endalausu þrá eftir hinum “rétta” líkamsvexti.

Í raun eru nær allir undir einhverjum áhrifum þessarar tilbúnu samfélagsmyndar og fáir ef nokkrir eru algörlega ónæmir fyrir þeim.

Þau sem fara yfir mörkin hafa mörg hver mikla þörf fyrir að gera allt rétt, gera engin mistök, vilja gera öllum til geðs og sýnast fullkomin að öllu leyti. Stundum er sjálfsmyndin ekki nægilega sterk til að berjast gegn áhrifum samfélagins og ljósvakamiðla heldur er litið upp til þeirrar ýmindar sem þar er framreidd.

Það sem mér finnst svo merkilegt og ég hugsa svo oft um er hvernig okkur hefur tekist að gera líkamsástand að mælikvarða á gildi manneskjunnar. Og með tilkomu samfélagsmiðlanna þá hefur þetta einhvern veginn læðst aftan að okkur og nú opnar maður ekki samfélagsmiðla öðru vísi en við manni blasi tilboð sem benda á hvernig við getum verið öðruvísi og aðeins betri en við erum. Nú eru komnir fram á sjónarsviðið svokallaðir áhrifavaldar sem eru í fullri vinnu við að kynna okkur alls kyns varning og miðla ímynd sem við fáum fæst fangað, bæði vegna þess að við heiðarlega höfum ekki tímann til þess eða peninga og svo erum við fædd með ólíka líkamsgerð sem gerir okkur ókleift að keppa við markaðinn.

Í Nýja testamentinu er kirkjunni líkt við líkama.

Við sem tilheyrum henni erum hluti af líkama Krists. Þessi líkami er kirkja sem lifir og þrífst af því að við erum einmitt öll ólík.

Ef við ætlum að vera raunverulega kristið samfélag, þá getum við ekki fangað fegurð þessa líkama, fyrr en við hleypum öllum að, sem mynda þennan líkama, í öllum sínum fjölbreytileika.

Í Korintubréfinu 3. kafla standa þessi orð:

„Vitið þið eigi að þið eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í ykkur? Ef nokkur eyðir musteri Guðs mun Guð eyða honum því að musteri Guðs er heilagt og þið eruð það musteri.“ 

Hér er Páll ekki að miðla einstaklingsbundnum einkaskilaboðum, heldur er hann að vara kirkjuna sem heild við. Við eigum að passa saman upp á það að þessi lifandi líkami sem kirkjan er, sé heill. Þegar við ráðumst á, jaðarsetjum eða beitum skömm og smánum fólk vegna líkamsástands þeirra, þá erum við einmitt að ráðast á musteri Guðs.

Hvernig væri að við tækjum saman þá ákvörðun að eyða einmitt ekki musteri Guðs. Það að smána líkama fólks og ráðast að líkamsvirðingu þess, eyðir smátt og smátt líkama Krists. Þá gildir einu hvort við erum að tala um hvernig þessi líkami virkar saman sem heild eða hvort við erum að tala um okkar eigin líkama, hvernig hann virkar.

Líkamssmánun býr til vanvirka reynslu. Við sköpum aðgreiningu þegar við metum fólk út frá mittisstærð en slíkt mat er alltaf andstætt vilja og kærleika Guðs því mynd hans er að finna í hverri manneskju sem lifir.

Það krefst nýrrar sýnar að sjá mynd Guðs í hverri manneskju í öllum stærðum og gerðum og þar byrjum við á okkur sjálfum.

Fyrsta verkefnið er að hafna þröngum skilningi á því hvað er “rétt líkamsástand”. Næsta verkefni er að hafna líkamssmánun og byrja að lifa þannig að við umföðmum allt það sem við erum, með kostum okkar og göllum, líkama okkar og sál.

Sérhver líkami sem fæðist er í mynd Guðs og er góður. Okkur hefur mistekist að fanga þann merkilega boðskap og raungera hann, en Guð er alltaf að minna okkur á hann í sinni sístæðu sköpun.

Með komu Jesú í heiminn, birtist Guð okkur í holdi og þegar hann yfirgaf þetta jarðlíf gaf hann okkur andann og með honum þau skilaboð að allir mannslíkamar eru verðugir eins og þeir eru.

Með því að vera sköpuð í mynd Guðs höfum við hlotið í vöggugjöf náðargjafir, sköpunarkraft og kærleika. Köllun okkar, hvort sem við erum feit eða mjó, stór eða smá, rauðhærð eða ljóshærð, svört eða hvít, er sú sama: Að elska Guð og elska náungann eins og okkur sjálf. Engir samfélagslegir dómar sem fela í sér hvaða líkamar eru réttir líkamar, breyta þeim sannleika.

“Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“
Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.”

Góður Guð gefir okkur öllum sjón til að sjá hversu mikilvæg við erum öll nákvæmlega eins og við erum.

Guð gefi að við fáum saman unnið gegn líkamsmánum hvar sem hana er að finna og þannig hugsanlega bjargað lífi þeirra sem verða átröskunum eða öðrum geðsjúkdómum að bráð vegna skilaboða sem samfélagið sendir þeim um hvernig þau eiga að vera til að vera gjaldgeng.

Guð miskunni þeim ráðandi því þau vita ekki hvað þau gera.

Guð gefi að við sjáum og öðlumst trú á gildi okkar, að við sjáum að við erum góð þegar við erum ein heild, einn líkami og ein sál í Jesú nafni. Amen.

Sr. Sunna Dóra Möller