„Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ 

Heilög Hildegard frá Bingen, sem var þýsk abbadís sem lifði á 12. öldinni og var einnig rithöfundur, tónskáld og margt fleira, á þessi orð:

“Við getum ekki lifað í veruleika sem hefur verið túlkaður fyrir okkur. Slíkur veruleiki færir okkur ekki von.
Hluti af óttanum er að byrja að hlusta fyrir okkur sjálf.
Að nota okkar eigin rödd. Að sjá okkar eigin ljós”.

Ég hef verið að velta fyrir mér í samhengi við texta dagsins hugtökunum hroka og auðmýkt.

Ef ég gúgla á netinu skilgreiningum á hroka þá kemur þetta meðal annars upp:

Hroki er til staðar þegar stolt verður að ofmetnaði, þ.e. þegar einhver telur sig vera mikilvægari en almennt gengur og gerist. Hér hefur einstaklingur misst tengsl við raunveruleikann og ofmetur hæfni sína eða eigin getu.

Hrokinn er skortur á auðmýkt og því að elska sjálfan sig og aðra skilyrðislaust. Hér má sem dæmi nefna þegar einstaklingur er kominn á þann stað að telja sig yfir aðra hafinn. Hrokinn er næring fyrir neikvæða menningu.

Hrokinn tengist því ekki neitt að hafa gott sjálfstraust. Hrokinn tengist miklu frekar frekar óöryggi.

Gott sjálfstraust felur í sér sjálfsþekkingu og sjálfsvitund sem gerir okkur kleift að þekkja og kannast við veikleika okkar. Þegar við þekkjum þá, höfum við tækifæri til að gera betur og bæta það sem við viljum í eigin fari.

Hrokinn þekkir ekki veikleika. Hrokinn þarf ekki að lagfæra neitt, hann hefur nú þegar höndlað sannleikann bæði fyrir sig og fyrir þá sem hann umgengst.

Hroki og sjálfhverfa eru systkin. Þessi systkin eru sálrænar hríðsskotabyssur á sálarlíf þeirra sem þau mæta. Markmið þeirra er að skapa sem mesta sundrungu eins og hægt er manna á millum en á þeirri sundrungu hagnast þau best.

Þau keppast við að ala á skömm og leitast við að koma inn hjá öðrum að það sé eitthvað grundvallandi að í þeirra fari og þegar verst lætur fá þau fólk til að að efast um eigin geðheilsu og dómgreind í samskiptum. Hér er aðalávinningnum náð.

Sjálfhverfur og hrokafullur einstaklingur græðir á vanmætti annarra. Það lyftir honum upp og upphefur veru hans alla. En þar vill hann vera, hátt upp hafinn og dáður. Hann vill aldrei vera í jafningjasamskiptum eða mæta fólki í styrkleika.

Um leið og hann er í slíkum aðstæðum byrjar hann að grafa undan og veikja, því um leið og eitthvað ógnar yfirburðastöðu hans í aðstæðum verður hann hræddur.

Þar birtist óöryggi hins sjálfhverfa einstaklings. Óöryggi hans er ótti við afhjúpun. Það er það að heimurinn sjái hann ekki sem þá yfirburðamanneskju sem hann telur sig vera. Hann svífst einskis við að viðhalda þeirri stöðu sinni og fórnarkostnaðurinn eru þau sem inn í nærumhverfi hans koma.

Sjáfhverfur einstaklingur býr því til sögur um annað fólk. Hann tekur sér það vald að skilgreina líf þess, hann talar yfir og kennir. Hann gerir þetta bæði leynt og ljóst eftir því, hvað hentar best markmiðum hans hverju sinni.

Það sem er verst við einstaklinga sem eru sjálfhverfir og hrokafullir er það að flest er þetta fólk með sterkt aðdráttarafl og karisma og hrífur fólk þannig með sér að það áttar sig ekki á í hverju það er lent fyrir en það er orðið of seint og það er flækt í neti sem margir einstaklingar eru mörg ár að vinna sig út úr, bæði félagslega og andlega.

Oftar en ekki þarf faglega hjálp út úr slíkum aðstæðum.

Það er svo mikilvægt að átta sig á því að sjálfhverfi einstaklingurinn hefur aldrei þinn hag að markmiði, hversu mikið sem þú reynir að telja þér trú um það. Í öllum hans orðum og gjörðum er alltaf eitt aðalmarkmið: Það er hann sjálfur og hans eigin persónulegi ávinningur.

Við könnumst held ég flest við helgisöguna af Ekkó sem var fjalladís í grískri goðafræði og Narkissosi:

“Dag einn kom Ekkó auga á Narkissos sem var fríður 16 ára gamall drengur. Ekkó varð samstundis ástfangin af Narkissosi og elti hann um skóginn en gat ekki yrt á hann vegna álaga sem hún var undir. Þegar Narkissos, sem hafði orðið viðskila við kunningja sína, hrópaði „Er einhver hér?“ þá hrópaði Ekkó á móti „Hér, hér!“ Þannig bergmálaði Ekkó hvað svo sem Narkissos sagði. Að lokum steig Ekkó fram og vildi faðma Narkissos að sér en hann flýr á braut. Ekkó visnaði upp vegna sorgar og að lokum var ekkert eftir af henni nema röddin ein. Narkissosi hefndist þó fyrir því gyðjan Nemesis gerði hann ástfanginn af sinni eigin spegilmynd. Þegar Narkissos kom að vatni nokkru og vildi svala þorsta sínum kom hann auga á spegilmynd sína í vatninu og varð þegar í stað ástfanginn. Þar lá hann og starði á spegilmynd sína skeytingarlaus um allt annað þar til hann dó.”

Út frá þessari fornu sögu hefur orðið narcissism verið notað um sjúklega tegund sjálfsdýrkunar og sjálfsástar.

Hér er alveg ljóst að þessi persónueinkenni hafa fylgt okkar frá örófi alda. Á öllum tímum verður til fólk sem hrífst af eigin spegilmynd og skeytir ekki um neitt annað sem á vegi þess verður.

Auðmýktin sem ég nefndi í upphafi sem andstæðu hrokans felur allt annan veruleika í sér. Höfum í huga að sönn auðmýkt er ekki að lægja sjálfan sig þannig að persóna okkar og vera hverfi alveg. Sönn auðmýkt er sjálfvitund og sjálfsþekking.

Auðmýkt nærir hluttekningu og samlíðan með öðrum. Í auðmýktinni ertu ekki óörugg heldur hvílir í þeirri vissu að þú hafir gildi. Þegar þú þekkir gildi þitt, þá óttastu ekki fólk í kringum þig, að það taki frá þér eitthvað sem þú telur vera þitt. Þá verður lífið ekki stöðug hagsmunagæsla heldur innihaldsríkt og gefandi.

 Það að hafa til að bera auðmýkt og sanna sjálfsþekkingu gefur þér líka gleraugu til að sjá í gegnum hrokann og sjálfhverfuna og um leið nærðu valdi yfir eigin lífi. Þú getur litið gagnrýnum augum á allt sem er sagt og valið að hafna því sem gerir þér ekki gott eða eða er ekki farsælt fyrir þig. Þannig getur þú skrifað þína eigin sögu. Ákveðið sjálf/ur hvernig þitt líf er skilgreint og miðlað þinni eigin heilbrigðu sjálfsmynd og sýn á lífið.

 Við getum nefnilega ekki lifað í veruleika sem hefur verið túlkaður fyrir okkur. Slíkur veruleiki færir okkur ekki von.

Við verðum alltaf að hafa von og við verðum að lifa þannig að við getum treyst þeim sem inn í líf okkar koma, að þau séu okkur raunverulega samferða, að þau leyfi okkur að vera gerendur í eigin lífi og þegar við lendum í vanmætti eða mætum veikleikum okkar, þá séu þau með okkur þar og hjálpi okkur að rísa á fætur í stað þess að nýta sér þær aðstæður til eigin hagsbóta eða til að ná valdi yfir okkur á einhvern vanvirkan hátt.

Í bókinni Þjóðgildin eftir Gunnar Hersvein þar sem fjallað er um gildin sem viska fjöldans valdi á þjóðfundinum 14. nóvember árið 2009 segir þetta um traustið:

“Traust er frumskilyrði mannlegra samskipta, það heldur samfélagi manna saman. Traustið milli manna er huggunin sem tengir þá saman – en um leið og það dvín og vantraustið nær fótfestu, hallar undan fæti.

Traustið nemur staðar þar sem vitinu sleppir, þar sem hugrekkið breystist í ofdirfsku, stolt í ofmetnað, bjartsýni í blindu. Traust þarf að vera gagnkvæmt til að það verði fólki farsælt. Börn treysta foreldrum sínum og hjón hvort öðru”

Jafnvel trúin er reist á trausti, að trúa felst í því að treysta Guði. Það traust er ekki reist á rökum, líkum, sönnunum eða skynsemi, heldur von.

Trúnaðartraust fjölskyldunnar er aftur á móti ekki aðeins reist á von heldur reynslu og stuðningi sem skapar hamingju. Þar þarf hjálp, vernd og öryggi. Glatist traustið sundrast fjölskyldan. Traust er því ævinlega það sem heldur fólki og þjóðum þétt saman”

Góður Guð gefi að við fáum lágmarkað hrokann í samfélaginu og þannig skapað valdeflandi umhverfi þar sem við öll fáum blómstrað í öllum okkar fjölbreytileika.

Guð gefi að við hættum að óttast hvert annað, hættum að taka okkur það vald að tala niður annað fólk, skilgreina það og meiða.

Guð gefi að við sjáum og uppgötvum að við öðlumst ekki virðingu á kostnað annarra. Við öðlumst hana einmitt með því að lyfta fólkinu í kringum okkur upp. Við öðlumst hana með því að elska skilyrðislaust. Við öðlumst hana um leið að við hættum að gera persónu okkar að lokatakmarkinu í öllum okkar orðum og gjörðum

Narkissos var svo hugfanginn af eigin spegilmynd að hann starði á hana þar til hann dó.

Jesús segir við okkur í dag:

Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“ 

Í Jesú nafni, amen.

Sr. Sunna Dóra Möller