Í 6. kafla Míka stendur:

Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er
og hvers Drottinn væntir af þér:
þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð.

Við berjumst öll við sterkar tilfinningar og stöndum frammi fyrir miklum ótta. Ótti getur verið lamandi og náð stjórn á hugsunum okkar og ákvörðunum. Sumar kringumstæður eru þess eðlis að heilbrigð skynsemi segir okkur að við munum missa allt sem okkur er kærast. Ótti er bráðsmitandi og berst frá manni til manns. Við könnumst öll við að ganga í burtu eftir samskipti þar sem við upplifum vonleysi, ótta og efumst um okkur sjálf og aðra.

Við reynum að tryggja okkur, það sem er okkar og förum í vörn. Í þessu ástandi er erfitt að finna trú, von og kærleika.

Jóhannes Klimakus var spurður: ,,Þegar þú biður, hvað segirðu þá?“ Og hann svaraði:

,, Nú, ég nota orðin, sem Guð gaf okkur, Davíðssálma og Faðir vor, lofsöng Maríu og bæn Símeons og Sakaría. Þetta nota ég umfram allt en mundu þó eitt:

Tollheimtumaðurinn kom í musterið og sagði: Guð vertu mér syndugum líknsamur, og hann var bænheyrður. Ræninginn á krossinum sagði: ,,Jesús minnstu mín!“ og hann var bænheyrður. Blóðsjúka konan laumaðist að baki Jesú og snerti skikkjufald hans, og hún læknaðist. Og Sakkeus sat í trénu og sagði ekki neitt, hann bara horfði og sá, og hjálpræði hlotnaðist honum og húsi hans. Og það er aðalatriðið, að horfa í rétta átt, að horfa til Jesú og sjá hann. En ef við höfum orðin sem hann gaf, þá notum við þau að sjálfsögðu. Sá sem elskar Guð, nýtur þess að nota orðin af munni hans í bæn sinni.“

(Sögur eyðimerkurfeðranna í Bænabók Karls Sigurbjörnssonar).

Í 12. kafla Lúkasarguðspjalls segir Jesú við lærisveina sína:

,,Því segi ég ykkur: Verið ekki áhyggjufullir um líf ykkar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama ykkar, hverju þið eigið að klæðast. Lífið er miklu meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin. Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum! Og hver ykkar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn? Fyrst þið orkið ekki svo litlu, hví látið þið allt hitt valda ykkur áhyggjum? Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi ykkur jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki búinn sem ein þeirra.

Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða ykkur, þið trúlitlir!“

Öflugasta verkfærið sem við höfum gegn ótta og kvíða er þakklæti. Það getur verið nánast óyfirstíganlegt verkefni að finna eitthvað til að þakka fyrir í kringumstæðum okkar.

Í lofgörðinni beinum við huganum til Guðs og minnum okkur á allt sem hann hefur gert fyrir okkur. Við getum einnig lofað Guð með því að syngja sálma eða annan söng. Við getum líka lofað hann með lífi okkar og kærleika okkar til annarra. Með því að virða líf og réttindi annarra lofum við Guð. Þegar við nýtum hæfileika okkar, gáfur og eigur í þjónustu við aðra heiðrum við Guð. Þegar við tökum eftir því sem Guð hefur gefið okkur fyllumst við gleði og kærleika sem er öllum ótta yfirsterkari.

Eitt sinn ákvað eiginmaður minn að leggja góðu málefni lið. Hann skráði sig í tíu kílómetra hlaup og safnaði áheitum. Hann hugsaði með sér að hann hefði nægan tíma til að þjálfa sig upp og kaupa sér hlaupaskó. Tíminn leið og hann hafði safnað góðri upphæð þegar dagurinn rann upp. Æfingarnar og skókaupin höfðu hins vegar alveg gleymst. Hann mætti í hlaupið en það þyrmdi yfir hann og hann áttaði sig á að þetta yrði honum erfitt. Hann hafði alls ekkert hlaupið í nokkur ár og ekki í besta líkamlega forminu. Þegar hlaupið hófst horfði hann niður á fæturna á sér og hugsaði að þetta gæti orðið vægast sagt niðurlægjandi upplifun. Það sem honum þótti hins vegar verst var að þetta góða málefni sem hann hljóp fyrir fengi ekki greitt ef hann kæmist ekki alla tíu kílómetrana.

Hann hlóp af stað og fann að hann varð mjög fljótt þreyttur. Hann horfði upp og bað Guð að gefa sér styrk til að bera sig alla leið. Allt í einu varð honum litið í kringum sig og sá alla hlauparana sem voru mættir til að leggja góðu málefni lið. Hlaupararnir voru á öllum aldri, sumir haltir, aðrir með barnakerrur og allir að gera sitt til að gera samfélagið okkar betra. Hann fylltist stolti og þakklæti að fá að upplifa þessa von og kærleika sem ríkti. Næst tók hann eftir hversu fallegt útsýnið var og hversu margir höfðu mætt til að hvetja hlauparana áfram. Áður en hann vissi var hann að ná takmarkinu.

Sem betur fer vissi hann ekki að þegar hann hafði lokið hlaupinu beið hans barnshafandi eiginkona með þrjú þreytt smábörn sem hann átti eftir að bera að bílnum. Já hún hafði gleymt hvar hún hafði lagt honum, og fékk hann því að ganga töluvert lengra, en að þessu sinni með eitt barn í fangi og annað á herðum. Þegar við stöndum í aðstæðum sem við teljum okkur ofviða sýnum við stundum mikinn styrk.  Við þurfum að muna að horfa upp og taka svo eitt skref í einu í þeirri von að Guð vilji að okkur takist að sigra aðstæður okkar.

Að hafa Guð er ekki að taka hann með fingrunum, stinga honum í vasann eða geyma hann í skríni. Nei að grípa Guð er láta hjartað allt grípa hann og festa sig við hann. En að festa sig við hann er ekkert annað en að treysta á hann að fullu og öllu.

(Lúter, í Bænabók Karls Sigurbjörnssonar)