Biðjum:

Guð gefi þér regnboga eftir hverja skúr
Bros fyrir sérhvert tár
Huggun í hverri raun
Hjálp í allri neyð
Vinarhönd í hverjum vanda
Fagran söng fyrir hvert andvarp
Og svar við hverri bæn.
Amen

Þessi dagur, allra heilagra messa er minningadagur, dagur sem er helgaður minningu þeirra sem hafa kvatt okkur og lifa enn í hjörtum okkar og huga.
Minningar eru staðurinn þar sem þau sem við elskum halda áfram að lifa eftir að þau er horfin frá okkur. Við eigum minningar og höldum í þær af því það er á þeim stað þar sem við getum horfið aftur og kallað fram það sem áður var, í raun hist og fundist á ný. Þess vegna eru minningarnar okkar mikilvægar og dýrmætar og geta mildað tímann þegar sorgin er sem sárust.

Það er líka margt sem kallar fram minningar bæði undirbúið og einnig óvænt. Það er ljóst að árlegir viðburðir, hefðir og hátíðir eru óhjákvæmilegar kveikjur og kalla fram minningar í hugum okkar um látna ástvini. Eftir missi öðlast minningarnar okkar nýjar víddir. Minning sem áður var ljúf og góð, getur tekið á sig skugga sorgar ef hún tengist manneskju, stað eða tíma sem horfinn er úr lífi okkar. Það er svo merkilegt að þarna gildir einu hvort minningin sé góð eða slæm, því báðar hliðar geta valdið okkur sársauka á ákveðnu tímabili í sorgarferlinu,

Ég las um daginn grein um sorgarkveikjur, en það er hvaðeina sem kallar fram minningu í huganum sem tengist missi. Kveikjurnar geta verið augljósar og á ákveðinn hátt, á ákveðnum stað og tíma má búast við þeim en þær geta líka verið óvæntar, til dæmis ef þú rekst á einhvern sem líkist þeim sem þú hefur misst í mannfjölda. Sorgarkveikja getur tengst einhverri augljósri minningu eða tilfinningu eða hún getur verið eitthvað sem ryðst inn í meðvitundina þína óundirbúið og skilur þig eftir með söknuð og þrá.

Sorgarkveikjur geta því verið erfiðar því þær opna flóðgáttir fyrir minningar sem spretta fram í hugann án þess að þú kallir beint eftir þeim sjálf/sjálfur. Þessar minningar geta komið fram hvar sem er og hvenær sem er, þegar þú situr í umferð, ert í vinnunni eða þegar þú eldar kvöldmatinn. Mörg þessara minningabrota eru skaðlaus á meðan önnur sem tengjast látnum ástvinum geta skilið okkur eftir með góðan skammt af tilfinningaóreiðu í kollinum sem við eigum erfitt með að bregðast við eða hafa stjórn á þegar hún brýst fram.
Til að skýra þetta aðeins betur, þá eru þessar minningar ekki eingöngu tilviljanakenndar og koma ekki alveg út úr blánum því oftast er það eitthvað sem við sjáum, heyrum, finnum lykt af eða jafnvel lesum sem kveikja ákveðnar minningar. Þessar óviðbúnu sorgarkveikjur trufla á ákveðinn hátt rútínuna okkar og normið, vegna þess að þessi sterka tilfinning framkallar minningarbrot sem er svo ljóslifandi í kollinum okkar og skilur okkur eftir með annað hvort gleði og þakklæti í brjósti en getur líka látið okkur líða eins og við höfum verið kýld í magann á þeim stað og á þeirri stundu.

Fyrir einstaklinga sem hafa nýverið misst ástvin, getur vitneskjan um þessar kveikjur framkallað kvíða. Við getum óttast það að geta ekki varið okkur þegar við mætum þessum kveikjum í okkar daglega lífi sem minna okkur á andlát og um leið fjarveru þeirra sem við höfum misst, sérstaklega rétt eftir missinn þegar tilfinningalíf okkar er viðkvæmt og hrátt.
Viðbrögð við slíkum kvíða geta verið margskonar líkt og að reyna að forðast það sem kallar fram minningar, hluti, fólk og staði. Aðrir kunna að reyna að böðlast í gegnum lífið og leyfa sér að brotna þar sem þau eru stödd þegar óviðbúin minningarbrot koma upp.

Það er saga sem er jafngömul og tíminn að sorgin hverfur ekki frá okkur en við getum lært að lifa með henni. Lært að lifa með kveikjunum okkar og öðlast ákveðið umburðarlyndi fyrir okkur sjálfum þegar þær kalla fram hjá okkur minningar, bæði undirbúið og óundirbúið. Við höfum svo mikla aðlögunarhæfni mannfólkið, það hefur mörg sorgarsagan sannað. Jafnvel þegar okkur líður eins og við getum með engu móti lifað án þeirra sem við höfum misst, þá gerist það engu að síður hægt og rólega.
Við vitum líka að það vinnur enginn eins og úr sinni sorg, það sem einum finnst gagnlegt finnst öðrum vita gagnslaust og óþarft. Þá er það líka deginum ljósara að það er engin ein bein lína til að fara eftir í sorgarferli því sorgin er þannig að hún fer alltaf út fyrir rammann því hún er ekki ein tilfinning heldur safn tilfinninga og þess vegna getum við aldrei reiknað út fyrirfram hvernig við sjálf eða annað fólk bregst við áföllum og missi.

Svo er það þannig að sorgarviðbrögðin okkar litast mjög af þeim tengslum sem við höfum átt við þau sem við höfum misst.
Það líf sem blasir við eftir missi er þess vegna bæði óreiðukennt og í föstum skorðum í senn. Þar sem rútínan getur verið ákveðið skjól en viðbrögðin okkar þess á milli við ólíkum aðstæðum svo tilviljanakennd og tilfinningaþrungin að við erum eins og í eilífum rússíbana á stjórnlausri ferð.

Það er vitað mál að það að reyna sorg á eigin skinni og bregðast við henni um leið er nokkuð sem enginn verður sérfræðingur í, hvorki hinir reyndustu né lærðustu. Við fáum hana alltaf óvænt í fangið. Það má sannarlega alltaf nýta sér reynslu sorgarinnar til aukins þroska ef að það er mögulegt en það sem skiptir alltaf máli er það að leyfa sér að fara út fyrir rammann, finna sína leið og læra að þekkja kveikjurnar svo að minningarnar okkar verði ljúfsárar og jafnvel kærkomnar þegar þær spretta fram í hugskotinu.
Því það er í minningunum sem látnir ástvinir okkar eignast framhaldslíf og það er þess vegna sem við geymum hluti sem minna okkur á þau eða þá að við heimsækjum staði þar sem okkur finnst þau vera okkur nærri.

Það er rétt að þegar einhver sem við elskum deyr, þá skapast sú hætta að minningin um þau framkalli sársauka hjá okkur sjálfum, hann er óumflýjanlegur. En ef við leyfum sorginni og sársaukanum að flæða í gegn án þess að hefta hann eða hörfa undan þá með tímanum kunna þínar sorgarkveikjur sem vöktu þessar erfiðu tilfinningar hægt og rólega að gefa þér kærleika, vellíðan og þakklæti.

Góður Guð gefi að svo megi verða hjá okkur öllum, að við fáum fundið leið til að finna okkar farveg í öllum þeim aðstæðum sem tengjast áföllum og missi, við öðlumst umburðarlyndi fyrir okkur sjálfum er við göngum í gegnum sorgarferli, að við lærum að þekkja okkur sjálf og hvað það er sem kallar fram tilfinningar, bæði sárar og ljúfar. Megum við finna styrk til að tala um þær og kalla eftir hjálp ef við erum hjálparlaus og megi góður Guð vaka yfir okkur öllum er við göngum í gegnum djúpar sorgir og missi.

Góður Guð vaki yfir, blessi og varðveiti minningu þeirra sem eru ekki hér lengur með okkur og megi ljós þeirra lýsa á meðal okkar á hverjum degi. Amen.

Sr. Sunna Dóra Möller