Einstaklega fjörugir nýárstónleikar í Hjallakirkju!
Aðgangseyrir 2000 kr. / 1000 kr. fyrir eldri borgara og námsmenn. Ókeypis fyrir börn 12 ára og yngri.

Duo Barazz skipa saxófónleikarinn Dorthe Højland frá Danmörku og Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti Hjallakirkju. Auk þess koma fram á tónleikunum m.a. félagar úr Kór Hjallakirkju og gestasöngvararnir Einar Clausen tenór og Hekla Sigríður Ágústsdóttir 9 ára með englaröddina sína.
Lára og Dorthe hófu samstarf og samspil í Danmörku og hafa haldið fjölmarga tónleika saman, meðal annars hér á Íslandi í Hallgrímskirkju og Stykkishólmskirkju. Lára hefur meðal annars sérhæft sig í flutningi BARokktónlistar meðan Dorthe er fyrst og fremst jAZZari – og þannig varð til nafnið Duo Barazz til. Þegar þessir tveir heimar mætast gerist ýmislegt óvænt og spennandi, og þar að auki er hugmyndaflugi þeirra Láru og Dorthe nær engin takmörk sett þegar kemur að lagavali. Þær hafa meðal annars slegið ítrekað í gegn með nýárstónleikum í Danmörku (sbr. https://www.facebook.com/events/576435629824498/ ) þar sem Lára var áður organisti, og nú er loksins komið að því að leyfa Íslendingum að kynnast öllu því sem enginn vissi að væri hægt að gera á nýárstónleikum. Efnisskráin verður EKKI gefin upp fyrirfram heldur fá tónleikagestir hana í hendur að loknum tónleikum. Það er þó óhætt að lofa allt frá ljúfum tónum til flugeldasýningar í lokin.

Aðgangseyrir 2000 kr. / 1000 kr. fyrir eldri borgara og námsmenn. Ókeypis fyrir börn 12 ára og yngri.