Skírn

Í skírninni er skírnþegi tekinn inn í kirkju Krists. Í hinni evangelísk lúthersku kirkju, sem Þjóðkirkjan er hluti af, er algengast að barn sé skírt meðan það enn er ómálga. Samkvæmt fyrirmælum Jesú Krists er barn skírt til nafns föður og sonar og heilags anda. Það er helgað Guði með Orði hans og bæn og ausið vatni.

Meginreglan er sú að barn sé skírt í kirkju og að viðstöddum söfnuði eða fulltrúum hans, en gömul hefð er fyrir því á Íslandi að skírn geti farið fram í heimahúsi.

Aðstandendur velja barninu skírnarvotta, eða guðforeldra. Þeir eru aldrei aldrei færri en tvö en geta mest verið fimm. Æskilegt er að í það minnsta eitt guðfeðginanna sé á þeim aldri að það geti fylgt barninu eftir til fullorðinsára. Foreldrar og guðfeðgin játa trúna fyrir hönd barns síns og skuldbinda sig þar með til að ala barnið upp í kristinni trú.

Tónlistarstjóri kirkjunnar getur boðið upp á fjölbreytta tónlist og sniðið tónlistina eftir þörfum hvers og eins. Hægt er að hafa samband upp á nánari upplýsingar á netfangið matti@hjallakirkja.is eða í síma 6988966

Hjónavígsla

Hjónavígsla nefnist sú athöfn þegar brúðhjón ganga til kirkju til þess að biðja Guð að blessa hjúskap sinn. Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er fyrst og fremst ákveðin afstaða brúðhjónanna til kristinnar trúar. Þetta er kristin hjúskaparstofnun og þess vegna verður a.m.k. annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni.

Meginregla er að kirkjubrúðkaup fari fram í kirkju. Í það minnsta skulu vera viðstaddir tveir vottar, eða svaramenn. Heimild er fyrir því að giftingarathöfn geti farið fram á heimili eða utanhúss.

Þegar um er að ræða hjúskap erlendra ríkisborgara eða þegar annað eða bæði hjónaefni hafa lögheimili erlendis þá gefa sýslumannsembættin út könnunarvottorð um hjúskaparskilyrði. Nánari upplýsingar um það er að finna á vefjum sýslumannsembættanna.

Tónlistarstjóri kirkjunnar getur boðið upp á fjölbreytta tónlist og sniðið tónlistina eftir þörfum hvers og eins. Hægt er að hafa samband upp á nánari upplýsingar á netfangið matti@hjallakirkja.is eða í síma 6988966

Útför

Þegar einhver úr söfnuðinum deyr þá fer fram útfararathöfn, venjulega í kirkju, og síðan greftrun í kirkjugarði. Undanfari hennar er kistulagning, sem er bænastund með aðstandendum. Einkenni útfararathafnarinnar er hin kristna von um upprisu og eilíft líf. Í trú á Jesú Krist leggjum við þau sem við kveðjum í vígða mold. Oftast eru þau sem deyja jarðsett í venjulegri kistu, en ef líkbrennsla hefur farið fram að lokinni útfararathöfninni þá er duftkerið jarðsett.

Prestar veita allar nánari upplýsingar og veita aðstendendum þá aðstoð sem þarf við undirbúning útfarar. Útfararstofur á höfuðborgarsvæðinu veita líka góða þjónustu í þessum efnum.

Þér er velkomið að ræða við presta kirkjunnar um ofangreindar athafnir með því að hringja í Hjallakirkju á viðtalstímum, senda tölvupóst til þeirra eða á netfang kirkjunnar, hjallakirkja@hjallakirkja.is.

Tónlistarstjóri kirkjunnar getur boðið upp á fjölbreytta tónlist og sniðið tónlistina eftir þörfum hvers og eins. Hægt er að hafa samband upp á nánari upplýsingar á netfangið matti@hjallakirkja.is eða í síma 6988966