Að lifa með reynslu af ofbeldi.

 

 

Eftir að hafa upplifað ofbeldi og að sinna sálgæslu þolenda ofbeldis er nokkur atriði sem að ég tel mikilvæg:

 

  • Við sem höfum reynslu af ofbeldi erum ekki minna virði, skemmd eða byrði á fólkinu í kringum okkur. Með því að loka okkur af og deila ekki hvernig okkur líður, erum við að hafna okkur sjálfum og neita okkur um nánd og stuðning. Við berum ekki ábyrgð á líðan annarra.

 

  • Það sem annar einstaklingur segir og gerir, ákveður ekki hvernig fólk við erum. Þeir einstaklingar sem beita ofbeldi eru ekki áreiðanleg heimild. Við bæði þurfum og megum gefa okkur tíma til að athuga sannleiksgildi þess sem hann hefur sagt við okkur.

 

  • Þegar einstaklingur beitir ofbeldi hefur hann tekið sér valdastöðu gagnvart þolanda sínum. Því er ekkert gagn af því að þolandi reyni að útskýra fyrir honum að hegðun hans sé ofbeldi eða reyni að laga hann. Við þurfum ekki að skilja hegðunina eða útskýra hana fyrir öðrum, það er fagfólk sem sérhæfir sig í því.

 

  • Fyrirgefning á ekki við þegar einstaklingur skilur ekki hvað hann hefur gert rangt, tekur ekki ábyrgð á orðum sínum, hegðun, eða framkomu og sýnir ekki raunveruleg merki um iðrun. Áframhaldandi samskipti eru því skaðleg fyrir alla  án þess að það séu skýr og fyrirfram ákveðin mörk.

 

  • Okkur er kennt að þegar reynslan er afstaðin gangi allt vel og ekkert fjallað um afleiðingar. T.d. ævintýrin þar sem konur ganga í gegnum hræðileg svik, ofbeldi og árásir en þegar þær giftast prinsinum verður allt gott. Þegar við hugsum um það finnst okkur raunverulega líklegt að Mjallhvít hafi borðað rauð epli af bestu lyst? Epli eru ekki hættuleg en í skaðlegum aðstæðum varð eitrað epli henni næstum því að bana. Allir þolendur eiga slíkar kveikjur (e. trigger) sem að tekur langan tíma að finna og leysa úr.

 

 

Það að verða fyrir ofbeldi í mínum huga er eins og að fá óboðinn gest í heimsókn. Viðkomandi mætir án þess að gera boð á undan sér og þrammar inn á skítugum skónum. Þegar gesturinn er kominn inn rótar hann í öllum hirslum, færir hluti úr stað og hendir sínu sorpi um allt.

Að frjósa og upplifa í kjölfarið vantrú og undrun eru eðlileg viðbrögð. Við myndum öll fara yfir hvað fór úrskeiðis og hvernig við gætum komið í veg fyrir að þetta gerðist aftur. Staðreyndin er samt sú að ekkert okkar á von á slíkri framkomu og nokkuð ljóst að slíkur gestur væri ekki velkominn inn aftur. Alveg sama hvaða skýringar  hann hefði fyrir  hegðun sinni.  Svona gerir maður ekki!

 

Þau viðbrögð sem við sýndum þegar atburðurinn átti sér stað segir ekki til um hvernig einstaklingar við erum. Við sýndum eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum. Allt of margir þolendur telja sig hafa brugðist rangt við. Það að beita óæskilegum aðferðum í samskiptum er ekki ofbeldi nema að þú njótir yfirburða gagnvart hinum aðilanum. Í heilbrigðum samskiptum gerum við öll mistök, við fáum tækifæri til að viðurkenna mistök okkar, biðjast afsökunar og tækifæri til að gera betur. Í samskiptum þar sem ofbeldi á sér stað eru þolendir gagnrýndir og þeim kennt að bera ábyrgð á samskiptunum í heild sinni og að skammast sín fyrir viðbrögð sín.

Það er ósanngjarnt að sitja eftir með allt í rusli eftir einhvern annan. Það hjálpar ekki að láta eins og við sjáum ekki ruslið, klofa yfir eða að breiða yfir það. Það versta er afstaðið – nú er bara að hreinsa til!  Góð byrjun er að taka allt það sem augljóslega er rusl og henda því. Næsta skref er að raða aftur í allar skúffur og skápa, og gæta þess að allt sem við teljum verðmætt fari á fallegan stað.

Það að vera með allt í óreiðu gerir það að verkum að okkur tekst ekki að hugsa skýrt, daglegar athafnir verða flóknar og við eigum það til að hrasa. Það tekur tíma að hreinsa til en það er hægt. Það er ekki víst að aðrir skilji það sem átti sér stað, við erum sökuð um að vera með allt í drasli og vera í ójafnvægi. Það er allt í lagi. Við vitum hvað gerðist og erum að vinna í því að koma öllu í eðlilegt horf. 

 

Líklegast verðum við vör um okkur þegar við fáum gesti í framtíðinni. Markmiðið er að við getum notið lífsins, átt skemmtilegt félagslíf og notið góðra stunda með vinum og fjölskyldu aftur.

Líf eftir ofbeldi.

 

Sr. Karen Lind Ólafsdóttir