Tökum ábyrgð á eigin heilsu og þörfum. Öll orkan sem fór í að lifa af og halda öllum góðum er núna notuð í að skapa betra líf. Við lærum að bera virðingu fyrir okkur sjálfum, þörfum okkar og tíma.

Þegar ofbeldi á sér stað lærum við að bregðast stöðugt við því sem getur skapað hættulegar aðstæður. Við lærum að forgangsraða upp á nýtt og höfum val um hvenær og hvernig samskipti við eigum við aðra (,,Það hentar ekki núna“, ,,já finnst þér það“ og önnur vingjarnleg en ákveðin mörk).

Við sættum okkur við að við gátum ekki komið í veg fyrir ofbeldið, við vorum varnarlaus og það var ósanngjarnt. Við erum ekki öruggari þó að við rifjum upp og greinum hvert atvik ítrekað, og ekkert okkar getur sagt til um framtíðina. Þegar við sættum okkur við þetta upplifum við sársauka, en gefum okkur leyfi til að skoða hvað geti veitt okkur öryggiskennd á meðan við byggjum okkur upp að nýju.

Kveikjur eru tengdar ofbeldinu sem við urðum fyrir en eru einar og sér ekki hættulegar. Þær láta okkur vita að það sem gerðist var ekki í lagi, og við viljum ekki að það gerist aftur. Það var gerandinn en ekki kveikjurnar sem ollu okkur skaða. Því er mikilvægt að staldra við og ákveða fyrir fram hvernig þú vilt veita þér öryggi ef þú upplifir óöryggi, kveikjur eða mætir gerenda þínum.

Setjum okkur mörk. Við þurfum ekki að mynda okkur skoðun á öðru fólki, þeirra samskiptum, ákvörðunum eða afkomu. Við gefum okkur leyfi til að hlusta og vera til staðar án þess að gefa óumbeðin ráð og leyfa fólki að taka sínar ákvarðanir. Við treystum öðru fólki til að lifa sínu lífi og sýnum þeim þá virðingu að reyna ekki að breyta þeim.

Ef þú ert ekki viss hvernig þú viljir bregðast við hefur þú fullt leyfi til að gefa þér tíma til að hugsa málið. Þú mátt vera tilbúin að stíga úr aðstæðum, afþakka boð eða taka hlé í samskiptum þangað til að þú ert búin að meta aðstæður. Þín mörk eru mikilvæg til að upplifa aftur öryggi, traust til fólks og að þú náir bata. Þú þarft ekki að útskýra af hverju fyrir neinum frekar en þú vilt. Þú skuldar engum samtöl eða útskýringar um þína reynslu af ofbeldi. Þú ert manneskjan sem situr uppi með afleiðingar og hefur fullan rétt til að vinna með þær á þínum hraða. Þú hefur leyfi til að taka aftur stjórn á þínu lífi, og sleppa tökunum af öðru fólki.